Fréttaútsendingar hætta á Skjánum eftir páska

SkjárEinn
SkjárEinn mbl.is/Golli

Fréttaútsendingum SkjásEins, sem hófust í október á síðasta ári, verður hætt frá og með páskum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Skjánum.

„Frá október á síðasta ári hefur SkjárEinn boðið upp á sjónvarpsfréttir alla virka daga í samstarfi við Morgunblaðið en eftir páska verða fréttaútsendingar á SkjáEinum hvíldar. Dagskrá stöðvarinnar verður áfram opin milli kl. 19 og 20 alla virka daga en lögð verður áhersla á afþreyingarefni í stað frétta á þessum útsendingartíma.  Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort eða hvenær fréttaútsendingar hefjast aftur.

„Við ákváðum að bjóða upp á sjónvarpsfréttir vegna þess að við vildum styðja faglega miðlun frétta í íslenskri fjölmiðlun. Með samstarfinu við Morgunblaðið fengum við tækifæri til að láta á það reyna þar sem fréttastofa Morgunblaðsins tók að sér vinnslu fréttanna.  Áhorf á fréttirnar var mjög gott fyrst um sinn en frá því að SkjárEinn breyttist í áskriftarstöð hefur það valdið okkur vonbrigðum og við erum fyrst og fremst að bregðast við því.  Ég vil taka fram að fólkið sem stóð að þessari tilraun sinnti verkefninu einstaklega vel og við erum mjög stolt af fréttatímanum.  Við munum áfram vera með opna dagskrá alla virka daga, en ætlum að auka áherslu okkar á afþreyingu,” segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Skjá miðla ehf. í fréttatilkynningu.

Fyrsta nýja serían sem SkjárEinn mun sýna í opinni dagskrá eftir páska er bandaríska raunveruleikaþáttaserían „I’m A Celebrity – Get Me Out of Here!“ sem skartar mörgum þekktum þátttakendum eins og Daniel Baldwin og Steven Baldwin. SkjárEinn heldur áfram að sýna íslenska þætti eins og Matarklúbbinn og GameTíví í opinni dagskrá auk gamanþáttasería eins og King of Queens og America’s Funniest Home Videos.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert