Mest-húsið nýtt sem íþróttahús

Mest rak um tíma verslun í Norðlingaholti.
Mest rak um tíma verslun í Norðlingaholti. Kristinn Ingvarsson

Borgarráð samþykkti í dag að gengið verði til samninga um aukin afnot af Egilshöll fyrir íþróttafélög í Grafarvogi sem og aðstöðu fyrir frístundastarf ÍTR í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Jafnframt verður gengið til samninga um afnot af svokölluðu Mest-húsi í Norðlingaholti til að koma upp aðstöðu fyrir fimleika, aðrar íþróttir og frístundastarf fyrir börn og unglinga í austurhluta borgarinnar.

Með húsnæðinu í Norðlingaholti verður bætt úr verulegum skorti á aðstöðu fyrir félags- og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni í hverfinu.

Samningurinn um aukin afnot af Egilshöll fyrir Ungmennafélagið Fjölni og önnur íþróttafélög tryggir áframhaldandi öfluga íþróttastarfsemi í höllinni á vegum Reykjavíkurborgar og aukinn aðgang fyrir barna- og unglingastarf, m.a. knattspyrnuæfingar, skautaiðkun, fimleika, frjálsar íþróttir o.fl. Þá felur samningurinn í sér afnot af gervigrasvelli, battavöllum og tennisvöllum við Egilshöll. Fjölni er þannig tryggð framtíðaraðstaða í og við Egilshöll en þess í stað hefur félagið fallið frá fyrri áformum um kostnaðarsama uppbyggingu íþróttamannvirkja í hverfinu. Þá hefur frístundaheimili fyrir fötluð börn og ungmenni úr Grafarvogi og nærliggjandi hverfum verið flutt í húsnæði Egilshallar.

Með samningi um afnot af Mest húsnæðinu í Norðlingaholti verður aðstaða íþróttafélagsins Fylkis fyrir fimleika og aðrar inniíþróttir í þágu barna- og unglingastarfs í austurhluta borgarinnar stórbætt. Þar verður einnig rekið frístundaheimili og félagsmiðstöð ÍTR frá og með næsta hausti. Lögð verður áhersla á aukið samstarf ÍTR og Fylkis vegna samþættingar íþróttastarfs, skóla og frístundaheimilis í húsinu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, segir íþrótta- og félagsstarf mikilvægt fyrir uppbyggingu góðra hverfa í borginni.

Björn Gíslason, formaður Hverfafélags Árbæjar, segist afar ánægður með ákvörðun borgarráðs að semja um nýtingu á Mest-húsinu. Verið sé að bæta úr brýnni þörf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert