Fréttaskýring: Óttast kvótaskort og stöðvun í fiskvinnslu

Gengið hefur óvenju hratt á þorskkvótann á yfirstandandi fiskveiðiári, aflabrögð hafa verið með eindæmum góð að undanförnu, og mokveiði verið á bátum t.a.m. á Breiðafirði eins og fram hefur komið. Margir bátar eru að verða búnir með kvótann og áhyggjur fara vaxandi af að vinnsla á einhverjum stöðum stöðvist með tilheyrandi atvinnuleysi bæði meðal sjómanna og fiskvinnslufólks.

Kröfur á sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnina um að auka við þorskkvótann verða sífellt háværari. Atvinnumálanefnd Dalvíkurbyggðar er á meðal þeirra sem sent hafa áskorun til sjávarútvegsráðherra. „Ef ekki verður brugðist skjótt við er ljóst að fiskvinnslufyrirtæki víða um land eru nauðbeygð til að grípa til lokana um lengri eða skemmri tíma með alvarlegum afleiðingum fyrir starfsfólkið, fyrirtækin og gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins.“

Boðað var til fundar með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í vikunni. Þar var farið yfir nýtingu aflaheimilda það sem af er fiskveiðiárinu og reynt að spá í horfurnar næstu mánuði. Undirliggjandi á fundinum var þrýstingurinn á sjávarútvegsráðherra að auka veiðiheimildir í þorskinum þó heimildarmanni sem sat fundinn hafi komið nokkuð á óvart að ekki töluðu margir hart fyrir aukningu. Ráðherra hefur engu svarað og mun líkast til enga ákvörðun taka fyrr en útkoma úr nýafstöðnu togararalli liggur fyrir, væntanlega í byrjun apríl.

Nýjustu tölur um nýtingu aflaheimilda sýna að veitt hefur verið meira af þorskaflahámarkinu og fleiri tegundum það sem af er fiskveiðiárinu en á sama tíma á undanförnum árum. Þannig hafa íslensk skip veitt á fyrri helmingi fiskveiðiársins 93.551 tonn af þorski og er nýtingarhlutfallið 54,2% af leyfilegum heildarafla. Á sama tíma í fyrra var heildarþorskaflinn 79.915 tonn og nýtingarhlutfallið var þá orðið 46,7%, skv. yfirliti Fiskistofu.

Hlutfall ýsuaflans er hins vegar svipað og á sama tíma í fyrra.

„Aflamarksskip hafa nýtt 59,7% af aflaheimildum sínum í þorski sem er nokkru meira en á sama tíma í fyrra þegar þau höfðu nýtt 47,3% af heimildum sínum. Nýtingarhlutfallið er einnig hærra hjá krókaaflamarksbátum á yfirstandandi fiskveiðiári. Krókaaflamarksbátar hafa nú nýtt 57,0% af þorskaflaheimildum sínum fyrstu 6 mánuði fiskveiðiársins. Á sama tíma í fyrra var nýtingarhlutfallið 44,2%. Það sem vekur helst athygli er að krókaaflamarksbátar eru langt komnir með að fullnýta aflaheimildir í löngu og ýsu. Nýtingarhlutfallið í löngu er komið í 95,8% en var á sama tíma í fyrra 66,5%,“ segir í umfjöllun Fiskistofu.

Fram kom í máli viðmælenda í sjávarútvegi í gær að á þessu gætu verið ýmsar skýringar. Útgerðir séu mislangt á veg komnar með að klára sína kvóta. Allir viti í upphafi fiskveiðiárs hver kvótinn er og stærri útgerðir skipuleggi hvenær hagkvæmast sé að nýta hann yfir fiskveiðiárið.

Bíða í ofvæni eftir útkomu úr vorralli

Ákvörðun um hvort aukið verður við þorskkvótann verður væntanlega ekki tekin fyrr en búið er að vinna úr niðurstöðum árvissra stofnmælinga Hafrannsóknarstofnunar á botnfiskum á Íslandsmiðum. Vorrallinu svokallaða sem hófst í lok febrúar er nú lokið skv. upplýsingum Hafrannsóknarstofnunar. Margir bíða spenntir eftir niðurstöðunum sem verða þó ekki birtar fyrr en búið er að aldursgreina sýnin. Fimm skip tóku þátt í verkefninu: togararnir Bjartur, Ljósafell og Jón Vídalín og rannsóknaskipin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson. Var togað á um 600 stöðum vítt og breitt á landgrunninu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert