Fara til að taka öskusýni

Flugbjörgunarsveitin stefnir að því að fara og taka öskusýni á …
Flugbjörgunarsveitin stefnir að því að fara og taka öskusýni á morgun. Ómar Óskarsson

Félagar í Flugbjörgunarsveitinni á Hellu stefna að því að fara að gosstöðvunum á morgun og taka sýni úr öskunni. Þeir munu fara á snjóbíl og vélsleðum yfir Mýrdalsjökul og niður á Fimmvörðuháls.

Almannavarnarnefnd bað Flugbjörgunarsveitina að fara þessa ferð. Karl Rúnar Ólafsson, félagi í Flugbjörgunarsveitinni, segir að menn muni taka stöðuna á morgun áður en endanleg ákvörðun verður tekin um hvort farið verði að gosstöðvunum.

Karl segir að farið verði upp á Mýrdalsjökul, yfir Kötlu og niður á Fimmvörðuháls. Hann segir að farið verði á snjóbíl og tveimur vélsleðum. Bíllinn fari ekki hratt yfir og því hafi menn viljað vera líka á snjósleðum, en farið yrði á þeim að öskusvæðinu.

Spáð er betra verði á morgun, en mjög hvasst hefur verið í veðri í dag. Flugbjörgunarsveitin fór að skálanum í Tindfjöllum í dag, en þar var um 40 metrar á sekúndu og ekki stætt. Sveitin ætlaði að ná í bíl sem hafði bilað, en útilokað var að athafna sig á svæðinu vegna veðurs. Bíllinn var skilinn eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert