Magma fær að kaupa HS-Orku

Magma Energy keypti hlut í HS Orku.
Magma Energy keypti hlut í HS Orku. Ómar Óskarsson

Lög um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri koma ekki í veg fyrir kaup Magma Energy á hlut í HS-Orku. Þetta er niðurstaða meirihluta ráðherraskipaðrar nefndar um erlendar fjárfestingar á Íslandi. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni.

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra segir að miðað við þessa niðurstöðu komi lögin ekki í veg fyrir kaup Magma í HS-Orku. Hann segir að hann muni fara betur yfir þessa niðurstöðu með embættismönnum í ráðuneytinu á morgun.

Fulltrúar allra flokka eiga sæti í nefndinni. Meirihlutann mynduðu fulltrúar Samfylkingu, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þau töldu ekki lagarök fyrir því að ógilda kaupin. Fulltrúi VG og Borgarahreyfingarinnar vildu hins vegar ógilda samninginn.

Magma Energy er kanadískt félag, en kaupin á HS eru gerð í gegnum eignarhaldsfélag í Svíþjóð. Lögin eru rýmri þegar kemur að fjárfestingum fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu á Íslandi. Ágreiningurinn snerist því m.a. um það hvort sænska félagið væri gildur aðili eða hvort líta bæri á móðurfélagið sem kaupanda.

Niðurstaða meirihluta nefndarinnar varð eins og áður sagði sú að beina ekki tilmælum til viðskiptaráðherra að ógilda kaupin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert