Ekki sérlög um ívilnanir til fyrirtækja

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra leggur frumvarpið fram.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra leggur frumvarpið fram. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að iðnaðarráðherra leggi fram frumvarp til laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Um er að ræða rammalöggjöf sem kveður á um að heimilt sé að veita fyrirtækjum afmarkaðar ívilnanir ef sannað þykir að starfsemi fyrirtækisins hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir þjóðarbúið.


Fram að þessu hefur Alþingi fjallað sérstaklega um öll fyrirtæki sem óskað hafa eftir fyrirgreiðslu í tengslum fjárfestingar hér á landi. Þetta á t.d. við um fjárfestingar álfyrirtækjanna. Jafnframt hefur þurft að senda samninga sem stjórnvöld hafa gert við fyrirtækin til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem kannar hvort samningarnar samræmist EES-samningnum.


Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp sem felur í sér ívilnun fyrir gagnaver Verne Holding. Frumvarpið er til umfjöllunar í iðnaðarnefnd. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun nefndin ekki afgreiða frumvarpið fyrr en búið er að leggja fram skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsök og afleiðingar hrunsins.

Átján frumvörp og þingsályktunartillögur voru lögð fram á ríkisstjórnarfundi í dag, en frestur til að skila inn stjórnarfrumvörpum til þingsins þannig að þau eigi greiða leið inn á dagskrá rennur út 1. apríl. Leita þarf samþykki þingsins ef afgreiða á frumvörp sem koma fram eftir þann tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert