Gos í toppgígnum ekki útilokað

Fjölmennt var á íbúafundinum í kvöld.
Fjölmennt var á íbúafundinum í kvöld. Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir

Talið er að hátt í fjögur hundurð manns hafi mætt á íbúafund vegna eldgoss í Eyjafjallajökli sem haldinn var í íþróttahúsinu á Hvolsvelli í kvöld.

Fulltrúar frá Almannavörnum, sveitarfélaginu, lögreglunni, heilsugæslunni, vísindamenn og fulltrúar frá Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlitinu ásamt vísindamönnum, fræddu íbúana um ýmsa þætti er snúa að afleiðingum gossins og einnig um aðdraganda þess og hvernig til tókst um almannavarnir á gosnóttina. Íbúum gafst síðan kostur á að leggja spurningar fyrir þessa aðila og koma með ábendingar varðandi rýmingu og fleira í þeim dúr.

Á fundinum kom fram að íbúar sem þurftu að vera tvær nætur að heiman voru ekki sáttir við það og leituðu skýringa. Kom fram í máli sýslumanns Kjartans Þorkelssonar, að ekki hefði þótt óhætt að leyfa íbúum að gista heima umrædda nótt vegna hættu á að gossprungan kynni að stækka til vesturs.

Þá var rætt um hættu á gosi í toppgíg jökulsins og kom fram í máli vísindamanna að ekki væri á þessu stigi hægt að útiloka slíkt en lýkur væru kannski fremur minni en meiri. Mögulegt hlaup í Skógá kom til umræðu, en ekki eru miklar líkur á því og eru ekki fordæmi fyrir því en það er samt möguleiki ef gýs á vissri sprungu.

Áhyggjur af flúormengun

Áhyggjur komu fram vegna flúormengunar í lækjum en á þessu stigi máls er ekki nein hætta talin á slíkri mengun sem verður aðeins ef um öskufall verður að ræða og verður þá fylgst með því. Komið hefur fram í fréttum að óprúttnir náungar hafi verið á ferð kringum mannlausa bæi á svæðinu. Var bent á að það hlyti að vera óþarfi að auglýsa það opinberlega hverjir þurfa að fara að heima við þessar aðstæður. Fulltrúar almannavarna sögðu þetta verðuga ábendingu og tekið tillit til þessara athugasemda ef aftur þyrfti að koma til rýmingar.

 Að lokum kom fram að ekki væri meiri hætta á mengun vegna lofttegunda úr gosinu en af gufunum úr Hellisheiðarvirkjun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert