Vilja endurskoða samstarfið við AGS

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar

Þingflokkur Framsóknarflokksins telur að endurskoða þurfi samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ljósi atburða og breyttra aðstæðna frá því að upphaflegur samningur var gerður við sjóðinn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í þjóðarsátt flokksins sem kynnt var á blaðamannafundi fyrr í dag.

„Í því felst ekki að slitið verði samstarfi við sjóðinn án þess að fyrir liggi aðrar lausnir á þeim vanda sem ætlunin var að vinna á með aðkomu AGS. Hins vegar er löngu orðið tímabært að leita annarra leiða til að leysa umrædd vandamál. Hætta er á að sú nálgun sem nú er unnið út frá geti gert illt verra. Verði t.d. komið upp gjaldeyrisforða fyrir lánsfé sem svo er notaður í að halda uppi gengi krónunnar til skamms tíma mun það reynast dýrkeypt. Um það vitna ótal dæmi frá öðrum löndum. Ógjörningur er að verja gengi gjaldmiðils með lánsfé.

Leggja þarf áherslu á endurskipulagningu skulda fremur en nýjar lántökur. Ljóst þarf að vera hvernig farið verður með hugsanleg lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum og hvort raunveruleg þörf sé á lántökunni. Aðrar leiðir gætu reynst mun hagkvæmari. Vegna þessa hefur Framsóknarflokkurinn undanfarna mánuði átt í samskiptum við norska stjórnmálamenn og hafa fulltrúar allra flokka í Noregi lýst sig reiðubúna til að skoða slíkt fyrirkomulag leiti íslensk stjórnvöld eftir því," segir í þjóðarsátt framsóknar.

Framsóknarþingmenn telja mikilvægt að ná sátt milli löggjafans, framkvæmdavaldsins og aðila vinnumarkaðarins um að haldið verði aftur af verðhækkunum.

Þar getur ríkið verið leiðandi með því að hækka ekki gjöld og neysluskatta. Slíkar hækkanir lyfta enda vísitölu neysluverðs og bæta þannig við höfuðstól verðtryggðra lána.

Í ljósi þess hversu hratt hefur dregið úr kaupmætti er mikilvægt að sporna við áframhaldandi verðhækkunum. Það að hækka skatta á neysluvörur er auk þess þjóðhagslega óhagkvæmt þegar nauðsynlegt er að leita allra leiða til að auka neyslu.

Efnahagsleg óhagkvæmni verðhækkana felst einnig í því að þegar höfuðstóll lána heimila og fyrirtækja hækkar eykst fjárstreymi frá íslenskum almenningi til banka sem að mestu leyti eru í eigu erlendra kröfuhafa. Það má því gera ráð fyrir að verðbólguáhrif leiði til aukins útstreymis úr hagkerfinu."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert