Fellið gæti heitið Hrunafell

Hlaðist hefur upp vísir að felli eða fjalli við gígana …
Hlaðist hefur upp vísir að felli eða fjalli við gígana á Goðalandi. Ragnar Axelsson

Orðhög kona stakk því að Þórði Tómassyni í Skógum að viðeigandi nafn á nýja fellið sem er að myndast á Fimmvörðuhálsi geti verið  Hrunafell. „Þetta er á Hrunum á Goðalandi,“ sagði Þórður. 

Þórður var spurður hvort hann hafi sjálfur velt því fyrir sér hvað nýja fjallið eða fellið á Fimmvörðuhálsi eigi að heita?

„Auðvitað ekki,“ svaraði Þórður. „Einhver orðsnjall maður finnur eitthvert örnefni sem hæfir. Ég segi svo. Það er sjálfsagt nógur tími með það ennþá.“

Þórður var að lesa frásögn í Klausturpóstinum af eldgosinu í Eyjafjallajökli 1821. Þar gerir Magnús Stephensen eldgosinu allgóð skil yfir allt tímabilið sem gosið stóð. Eldgosið er talið hafa byrjað 19.-20. desember 1821 og stóð allt næsta ár. Árið 1823 tók svo Katla við.

Í Klausturpóstinum í febrúar 1822 birtist kvæði Bjarna Thorarensen, Tindafjöll skjálfa en titrar jörð. Yfirskrift þess er „Kvæði á fæðingardegi Friðriks konúngs sjötta, þann 28da Janúarii 1822“.

„Það er afmæliskvæði til Danakonungs þar sem Bjarni telur að Eyjafjallajökull sé að fagna afmæli konungsins með eldgosinu. Þetta var sungið mikið á mínum æskudögum,“ sagði Þórður en hann er á 89. aldursári. 

Þórður segir að Bjarni segi í kvæðinu að fjallið gefi Danakonungi „gleðilog“ og „fagnaðaróp“ honum til heilla á afmælinu. Kvæðið beri vott um mikla konungshollustu skáldsins.

Eldgosið í Eyjafjallajökli 1821 hafði áhrif bæði undir Vestur-Eyjafjöllum og í Landeyjum. Þórður segir að á þeim tíma hafi menn fækkað við sig fénaði og komið frá sér fé. Gosið hafði þannig talsverð áhrif á afkomu og búsetu fólks. Skaði varð að öðru leyti ekki mikill. 

Þórður Tómasson safnvörður í Skógum
Þórður Tómasson safnvörður í Skógum Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert