Hótar að loka Reykjavíkurflugvelli

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Þorkell

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins (SHS), hótar því að loka Reykjavíkurflugvelli á næstu dögum fallist Flugstoðir ohf., sem reka völlinn, ekki á kröfur slökkviliðsins um mönnun brunavarna á flugvellinum sem og þjálfunarkröfur. Segir hann einnig koma til greina að manna vaktir slökkviliðmanna á vellinum með starfsfólki SHS á kostnað Flugstoða.

Árni Birgisson, deildarstjóri flugverndar og björgunardeildar hjá Flugstoðum, segir slökkviliðsstjóra ekki hafa neina heimild til að loka flugvellinum og hafa kært ákvörðunina til umhverfisráðuneytisins.

Deila SHS og Flugstoða hefur staðið yfir síðan í fyrra, þegar forsvarsmenn Flugstoða ákváðu að segja upp samningi við SHS. Að sögn beggja deiluaðila snýst deilan í grunninn um lagatúlkun, þ.e. hvort lög um brunavarnir gildi á flugvöllum og um mönnun þessara brunavarna. Slökkviliðsstjóri vill fjóra slökkviliðsmenn en að mati forsvarsmanna Flugstoða nægir að hafa tvo. Að sögn Árna fylgja Flugstoðir í einu og öllu þeim kröfum sem Flugmálastjórn hefur sett sem sé í samræmi við kröfur samgönguráðuneytisins.

Fyrir tæpri viku sendi slökkviliðsstjórinn bréf til Flugstoða og krafðist úrbóta fyrir morgundaginn annars yrði þvingunaraðgerðum beitt. Þeir geta verið í formi skriflegrar áminningar, fyrirskipun öryggisvaktar á kostnað Flugstoða eða lokun flugvallarins. Að sögn Jóns Viðars snýst málið um mönnun og öryggi jafnt starfsmanna sem og flugfarþega.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert