Mánaðarlaun 334 þúsund að meðaltali

Regluleg laun á almennum vinnumarkaði voru 334 þúsund krónur að meðaltali árið 2009. Miðgildi reglulegra launa var 282 þúsund krónur og því var helmingur launamanna með laun undir þeirri upphæð.

Algengast var að regluleg laun væru á bilinu 175-225 þúsund krónur og var rúmlega fimmtungur launamanna með laun á því bili. Regluleg laun karla voru 360 þúsund krónur að meðaltali en regluleg laun kvenna 293 þúsund krónur.

Þetta kemur fram í nýjum Hagtíðindum Hagstofunnar. Segir stofnunin að sé aðeins horft til þeirra launamanna sem teljist fullvinnandi, hafi regluleg laun þeirra verið að meðaltali 366 þúsund krónur á mánuði árið 2009 og var miðgildi þeirra 309 þúsund krónur. Regluleg heildarlaun voru 391 þúsund krónur að meðaltali og miðgildið var 344 þúsund krónur. Heildarlaun voru 423 þúsund krónur að meðaltali og miðgildi þeirra var 373 þúsund krónur. Greiddar stundir voru að meðaltali 43,1 á viku.

Launamenn í hæsta fjórðungi voru með 3,2 sinnum hærri regluleg laun en launamenn í lægsta fjórðungi árið 2009. Árið 2008 var samsvarandi tala 3,4. Segir Hagstofan að vísbendingar séu um, að bilið á milli hæstu og lægstu launa á almennum vinnumarkaði hafi minnkað frá fyrra ári.

Hagstofan segir, að áhrifa af breyttri samsetningu vinnumarkaðarins megi greina í niðurstöðum launa á almennum vinnumarkaði. Þannig dragist vægi byggingariðnaðar og mannvirkjagerðar saman úr 14% í 8% frá fyrra ári. Samdráttur í efnahagslífinu endurspeglist einnig í breyttri samsetningu innan einstakra atvinnugreina. Þannig hafi verkafólki fækkað í fyrrgreindri atvinnugrein frá því að vera 49% af vegnum heildarfjölda í greininni árið 2008 niður í 37% árið 2009. Þá jókst vægi stjórnenda á sama tíma úr 3% í 6%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert