Rætt um skuldavanda barnafólks á þingi

Guðmundur Steingrímsson og Birkir Jón Jónsson á Alþingi.
Guðmundur Steingrímsson og Birkir Jón Jónsson á Alþingi. mbl.is/Golli

Nú fer fram á Alþingi utandagskrárumræðu um skuldavanda ungs barnafólks á Alþingi. Málshefjandi er Höskuldur Þórhallsson, en til andsvara er Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra.

Höskuldur sagði ástæðu þess að hann vildi að þetta mál væri rætt á þingi væri sú að íslensk stjórnvöld virðist ekki ætla að læra af reynslu nágrannaþjóða okkar á krepputímum og nefndi í því samhengi Færeyjar og Finnland.

„Sífellt fleiri fjölskyldur þurfa nú að velja milli greiðslu reikninga og framfærslu fjölskuldunnar,“ sagði Höskuldur. Minnti hann á að Framsóknarflokknum hefði í meira en ár lagt til almennrar niðurfellingar skuldar sem myndi koma skuldugum barnafjölskyldum til góða. Sagðist hann fagna því að félagsmálaráðherra virtist vera að opna augun fyrir þessari lausn, en gagnrýndi hann jafnframt fyrir að hafa brugðist seint við.

Höskuldur gerði atvinnuleysi ungs fólk sérstaklega að umtalsefni. Sagði hann að með aðgerðarleysi núverandi stjórnvalda væri verið að búa til framtíðarvanda. „Það þarf að grípa til beinna aðgerða. Við verðum að horfa til reynslu nágrannaþjóða okkar,“ sagði Höskuldur og kallaði eftir aðgerðum sem allra fyrst.

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, þakkaði málshefjanda fyrir að taka málið upp. Sagði hann ljóst að barnafjölskyldur sé sá hópur almennur í samfélaginu sem upplifi afleiðingar efnahagskreppunnar með alvarlegustum hætti þar sem saman færi mikil skuldsetning samhliða því sem tekjuöflun væri ekki orðin eins mikil og hún verður mest á starfsævinni. Þegar svo saman fer hækkandi verðlag í samfélaginu.

Að sögn Árna Páls hefur ríkisstjórnin beint sjónum sínum og aðgerðum að því að aðstoða barnafjölskyldur. Sagði hann algjörlega óljóst hvort flöt skuldaniðurfelling myndi duga skuldsettum barnafjölskyldum. Sagði hann greiðslujöfnunin sem boðið væri upp á gagnaðist barnafjölskyldum best, auk þess sem vaxtabætur hefðu tvöfaldast. Einnig fengju barnafjölskyldur barnabætur. Sagði hann markmiðið með aðgerðum ríkisstjórnarinnar að mæta raunverulegum forsendubrestum í kjölfar mikillar skuldsetningar og lækkunar á fasteignamarkaði. Tók hann fram að greiðslujöfnun sem og fleiri úrræði á borð við vaxtabætur væru einu úrræðin sem raunverulega myndu nýtast skuldsettum barnafjölskyldum.

 Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, minnti á að 535 dagar væru nú liðnir frá efnahagshruninu og rúmlega 400 dagar síðan núverandi ríkisstjórn lofaði að mynda skjaldborg utan um heimilin í landinu. Sagði hún grafalvarlegt að enn lægi ekki fyrir hvað íslensk heimili skuldi og kallaði eftir því að þessum upplýsingum yrði safnað þannig að hægt væri að greina vandann og bregðast við honum með viðeigandi hætti. Minnti hún á að áhyggjuefni væri ef ungar barnafjölskyldur neyðist til að flytja úr landi vegna efnahagsástandsins.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, gerði séreignastefnuna í húsnæðismálum að umtalsefni. „Skuldavandi heimilanna hefur aldrei verið jafn mikill og í dag. Gömlu ráðin á borð við lengri vinnudag og sparnað duga skammt. Því þurfa að koma til bein og óbein úrræði ef við ætlum ekki að missa ungar barnafjölskyldur til nágrannalanda okkar þar sem félagslegt úrræði eru betri. Við þurfum aðgerðir sem létta undir með heimilunum,“ sagði Lilja og tók fram að gefa ætti fólki kost á að skila lyklum að húsnæði sínu og búa í leiguhúsnæði eða kaupleiguhúsnæði.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði þau úrræði sem ríkisstjórnin hafi þegar sett fram vera ágætt en minnti á að í þeim felist engin leiðrétting og því ekkert réttlæti. „Ef ungt barnafólk á að vilja búa hér áfram verður það að finna réttlæti á eigin skinni,“ sagði Margrét.

„Hvað er ungt barnafólk?“ spurði Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokks. Hann benti á að þetta væru framtíðarskattgreiðendur og borgarar þessa lands. Sagði hann marga nú þurfa að standa frammi fyrir þeirri spurningu hvort það felist gríðarleg áhætta í því að kaupa húsnæði eða bíl. „Verði svar ríkisstjórnarinnar já við þessari spurningu, þá mun þetta fólk hugsa sér til hreyfings og fara til útlanda,“ sagði Steingrímur.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, minnti á að skuldir væru yfirleitt mestar hjá fólki fram að fertugu. Sagði hún eðlilegt að ungu fólki væri brugðið út af þeirri stöðu sem nú væri upp komin, ekki síst þar sem þessi aldurshópur hefði ekki upplifað kreppur áður. Að hennar mati hafa lánastofnanir sýnt mikið ábyrgðarleysi og siðleysi í lánveitingum sínum til ungs fólks. Sagði hún mikilvægt að efla fjármálalæsi í skólum landsins. Tók hún fram að stjórnvöld væru að mæta erfiðleikum í skuldavanda ungs barnafólks en viðurkenndi að vissulega mætti ávallt gera betur.

Höskuldur þakkaði góðar og gagnlegar umræður. Gagnrýndi hann félagsmálaráðherra fyrir að gera lítið úr vandanum. Sagðist hann ekki kannast við að vaxtabætur hefðu verið tvöfaldaðar og tók fram að samkvæmt sinni vitneskju hefðu þær staðið í stað. Sagði hann ríkisstjórnina hafa afrekað það að hækka neysluskatta sem komi að sögn sérfræðinga þyngst niður á tekjulágum fjölskyldum. Að sögn Höskuldar væri vandi ungs barnafólks mun minni í dag hefðu hugmyndir Framsóknarflokks um almenna skuldaniðurfellingu verið komið í framkvæmd.

Árni Páll þakkaði einnig góða, málefnalega og uppbyggilega umræðu. Hann vísaði því á bug að hann væri að gera lítið úr vandanum enda blasti hún við öllum, á degi hverjum. „Það er hins vegar ekki hægt að láta vandann hverfa með einhverjum sjónhverfingum,“ sagði Árni Páll. Sagði hann mikilvægt að tryggja ungum barnafjölskyldum sambærilega kjör hérlendis og erlendis og tók fram að skuldavandinn hérlendis væri afleiðing íslensku krónunnar. „Þeir sem lýsa yfir ánægju með íslensku krónuna og mæra hana þurfa einnig að lýsa yfir ánægju með skuldavandann.“ Árni Páll benti Ólöfu á að í farvatninu væri heilmikil úttekt á skuldavanda íslenska heimila.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert