Örtröð bíla í Fljótshlíð

Eldgosið í Eyjafjallajökli er mikið sjónarspil þegar húmar að.
Eldgosið í Eyjafjallajökli er mikið sjónarspil þegar húmar að. mbl.is

Gríðarlega mikil umferð er nú um Fljótshlíðina og raunar Suðurlandsveginn allt frá Reykjavík. Hjón sem voru á leið inn Fljótshlíð í kvöld mættu 300 bílum á leið út úr Fljótshlíðinni, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli. Til stóð að loka veginum við Fljótsdal í austur nú á 11. tímanum í kvöld.

Búið er að setja vakt við veginn upp Fimmvörðuháls. Brögð voru að því að menn opnuðu leiðina þótt henni hafi verið lokað með keðju. Lögregla vaktaði leiðina í dag og björgunarsveit mun svo taka við vaktinni. Engin bílaumferð er leyfð um veginn.

Guðmundur Ingi Ingason varðstjóri sagði að enn væri mikil umferð austur þegar rætt var við hann á 11. tímanum í kvöld. Bílstjóri sem fór upp Lögbergsbrekkuna um kl. 21.30 sagði að þar væri stöðugur straumur bíla í austurátt.

Lögreglumaður á Selfossi sem kom að austan um kvöldmatarleytið sagði að þá hafi verið stöðugur straumur bíla í austurátt.

„Það er helgarfrí og fólk er að nota tækifærið til að skoða gosið,“ sagði Guðmundur Ingi. Það olli vandræðum í kvöld að fólk var farið inn á Emstruleið og þar höfðu einhverjir fest sig við að fara yfir Markarfljótið.

Erfitt er að finna pláss fyrir bílana og vegurinn svo þröngur að bílar geta tæplega mæst á köflum.  „Við verðum að leyfa fólki að komast til að skoða þetta, en það má ekki verða algjör ringulreið,“ sagði Guðmundur Ingi.

Búist er við fjölda fólks á svæðið á morgun. Lögreglan óttast gróðurskemmdir og utanvegaakstur og brýnir fyrir ökumönnum að fara að settum reglum. Eins að bílstjórar fari að öllu með gát. 

Mikil umferð bíla með snjósleðakerrur og fjórhjólakerrur hefur verið um svæðið. Lögreglan hefur tekið nokkra sem hafa ekið of hratt með kerrur í eftirdragi, en hámarkshraði með tengivagn er 80 km/klst. Bílar með kerrur voru mældir á allt að 120 km/klst. hraða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert