Athugað hvort hægt er að auka aflaheimildir

Skötuselur
Skötuselur mbl.is

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur góðar vonir um að atvinnuástand muni glæðast með vorinu þar sem mikill gangur er í útflutningsatvinnuvegum eins og ferðamennsku, sjávarútvegi og áliðnaði.

LÍÚ stjórnar ekki stjórnarráðinu á meðan Jóhanna er á vakt

„Skortur á aflaheimildum í sumar er áhyggjuefni og hlýtur að verða til þess að gerð verði sérstök athugun á því hvort hægt sé að auka aflaheimildir tímabundið til að kljást við þann vanda innan forsvaranlegra marka," segir Jóhanna.

Hún segir að fiskistofnarnir í íslenskri lögsögu séu sameign þjóðarinnar. „Í stað þess að vinna að því með stjórnvöldum að koma skynsamlegu  fyrirkomulagi á nýtingu þessarar auðlindar kjósa kvótahafar að hefja allsherjar áróðursstríð sem miðar greinilega að því að fella ríkisstjórnina og koma hrunflokkunum aftur til valda. Þeir eru vanir því að segja stjórnarráðinu fyrir verkum og una því illa að þeim sé ekki hlýtt. En á minni vakt er það ekki LÍÚ sem stýrir í stjórnarráðinu," sagði Jóhanna á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag.

Hún segist hafa mikinn skilning á því að öflug fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtæki þurfi stöðugleika og fyrirsjáanleika í rekstri. 

Hefur enga samúð með þeim sem braska með kvótann

„Ég hef hins vegar enga samúð með því hvernig útgerðarmenn hafa ráðskast með kvótann á undanförnum árum, leigt hann, selt hann, veðsett hann, braskað með hann og stundað glæfraspil með fjármuni úr sjávarútveginum í óskyldum greinum. Allt á grundvelli sameignar þjóðarinnar sem þeim hefur verið trúað fyrir. Nú standa þeir uppi stórskuldugir og þurfa að eigin sögn á 100 milljarða króna afskriftum að halda til þess að geta haldið fyrirtækjunum gangandi.

Í þessari stöðu eiga menn ekki að leggjast í áróður og blekkja fólk til stuðnings við sig. Menn eiga að hverfa frá villu síns vegar og setja mál í þann sáttafarveg sem ríkisstjórnin hefur reynt að stýra þeim í. Útgerðarmenn hafa svarað öllum tillögum stjórnvalda með hótunum. Það er stundum stór á þeim kjafturinn eins og á skötuselnum," segir Jóhanna.

Áhersla á uppbyggingu hjúkrunarrýma og athugað með byggingu nýs fangelsis

Á næstu vikum mun ríkisstjórnin kynna margvíslegar aðgerðir í atvinnumálum sem snúa m.a. að vegagerð og samgöngumálum, atvinnumálum námsmanna, byggingarframkvæmdum á vegum opinberra aðila, viðhaldsframkvæmdum og öðru sem tengist háannatímanum í sumar og fram á haust, að sögn Jóhönnu.

„ Sérstök áhersla verður lögð á uppbyggingu hjúkrunarrýma og í alvarlegri athugun er að ráðast í byggingun nýs fangelsis sem lengi hefur staðið til.
Byggingariðnaðurinn er sérstakt vandamál sem ríkisstjórnin hefur fengist við t.d. með því að ýta undir viðhaldsframkvæmdir um land allt með afnámi virðisaukaskatts. Það kemur einnig til greina að veita þeim einstaklingum og fyrirtækjum skattafslátt sem leggja í slíkar framkvæmdir. Á vegum stjórnvalda og í samvinnu við sveitarfélögin er verið að vinna að áætlun um stórfelldar flýtiframkvæmdir í viðhaldsmálum sem verður mjög umfangsmikil og mannaflafrek," segir Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert