Lilja og Reynir kaupa DV

Lilja Skaftadóttir
Lilja Skaftadóttir

Lilja Skaftadóttir, sem meðal annars er hluthafi í vefritinu Smugunni, hefur, ásamt Reyni Traustasyni keypt DV og dv.is af Hreini Loftssyni. Reynir mun ritstýra DV áfram ásamt syni sínum, Jóni Trausta. Fleiri hluthafar koma að kaupunum en þeir leggja til lægri fjárhæðir en hin tvö samkvæmt fréttatilkynningu frá DV.

„Hópur áhugamanna um frjálsa og óháða fjölmiðlun hefur keypt rekstur DV og DV.is af Hreini Loftssyni og fyrirtæki hans Birtingi. Stofnað hefur verið nýtt hlutafélag, DV ehf. og mun það hafa nægt fé til að styðja við reksturinn og koma blaðinu í gegnum tímabundinn samdrátt á auglýsingamarkaði. Mikil áhersla verður lögð á að takmarka áhrif eigendavalds á DV, en í samþykktum hins nýja félags er kveðið á um að enginn einn hluthafi geti farið með meira en 26% atkvæða, óháð hlutafjáreign. Einnig er í samþykktunum gerður skýr greinarmunur á stjórn félagsins og ritstjórn. Aukinn meirihluta mun þurfa til að breyta samþykktum," að því er segir í tilkynningu.

Eigendaskiptin á DV fara fram nú um mánaðamótin. Gerður hefur verið tímabundinn samningur við Birting um leigu húsnæðis og vissa stoðþjónustu. Rekstur blaðsins verður að öðru leyti óbreyttur og tíðni útgáfudaga verður hin sama. Ritstjórar verða áfram Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson og gert er ráð fyrir að þeir blaðamenn sem starfað hafa á ritstjórn DV haldi áfram störfum fyrir blaðið.

Stærstu hluthafarnir í DV ehf. eru Lilja Skaftadóttir og Reynir Traustason, en nokkrir leggja fram lægri upphæðir, auk þess sem starfsmönnum verður gert kleift að eignast hlut í blaðinu. Hluthafahópurinn verður kynntur nánar í DV strax eftir páska. Auk þess er gert ráð fyrir að nákvæm skrá yfir hluthafa blaðsins verði aðgengileg á vefnum dv.is. Kaupverð blaðsins er trúnaðarmál.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Lilja hefur starfað við listaverkasölu í Frakklandi. Hún á lögheimili á Íslandi en dvelur hluta ársins í Frakklandi.

„Lilja hefur ekki verið áberandi í íslensku viðskiptalífi. Einu hagsmunatengsl Lilju hér á landi eru að hún var framleiðandi heimildarmyndarinnar „Maybe I should have“ auk þess sem hún er meðal hluthafa í vefritinu Smugunni.

Lilja hefur lagt baráttunni fyrir auknu lýðræði á Íslandi lið og skipaði hún 2. sæti á lista Borgarahreyfingarinnar í NV-kjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar.
Lilja á tvær dætur sem búa í Frakklandi og eru 13 ára og 23 ára."


Reynir Traustason
Reynir Traustason mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert