Mjög slæmt veður á gossvæðinu

Eldgos á Fimmvörðuhálsi
Eldgos á Fimmvörðuhálsi RAX / Ragnar Axelsson

Mjög slæmt veður er á Fimmvörðuhálsi og undir Eyjafjöllunum að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli og ráðleggur fólki að vera ekki á ferðinni í kringum gossvæðið. Fer vindhraðinn upp í 40 metra á sekúndu í verstu hviðunum og mikil vindkæling.

Fáir ferðamenn eru á svæðinu í dag en virkni var minni í gosinu í nótt en hefur heldur aukist í morgun en er enn minni heldur en undanfarna daga samkvæmt óróamælingum Veðurstofunnar.

Gunnar Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að óróinn hafi byrjað að minnka um miðjan dag á laugardag og hann hafi minnkað umtalsvert um miðnætti í nótt. Hann segir að þrátt fyrir það séu enn jarðskjálftar undir Eyjafjallajökli.

Veðurspá fyrir Fimmvörðuháls í u.þ.b. 800-1000 metra hæð yfir sjávarmáli: Norðan 15-20 m/s og skýjað í fyrstu, síðan 10-15 og léttir til. Norðan 8-13 á morgun og léttskýjað. Frost 8 til 14 stig, vindkælistig á bilinu -20 til -25 stig í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert