Stjórnarsamstarfið ekki í hættu

Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Steingrímur J. Sigfússon á þingflokksfundi …
Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Steingrímur J. Sigfússon á þingflokksfundi VG í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Miklu meira sameinar okkur, þá meina ég bæði okkur sem flokk og líka ríkisstjórnarflokkanna sem samstillta hreyfingu á bakvið þessa ríkisstjórn, heldur en sundrar. Núningur um einstök mál eða ummæli eru smámál í því samhengi,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, eftir þingflokksfund í dag.

Steingrímur vildi ekki tjá sig um einstök ummæli sem forsætisráðherra lét falla í ræðu sinni á þingflokksráðsfundi um helgina. „Þeir sem kunna að vera þeirrar skoðunar, að sum ummæli þarna hafi ekki verið sérstaklega hjálpleg,  þeir hljóta að skilja að það er ekki skynsamlegt að ég sé að bregðast við þeim með einhverjum látum. Þannig að ég ætla ekki að gera það,“ sagði Steingrímur og bætti við að engin þörf væri á að þau Jóhanna gæfu ræðum hvors annars einkunnir.

Steingrímur sagðist ekki telja stjórnarsamstarfið í hættu og benti á að viðfangsefnin séu erfið og aðstæður snúnar. Það sé í takt við það sem hann átti von á og varaði við. „Þetta mun vera erfitt og taka í. Við munum þurfa á öllum okkar styrk að halda til að komast í gegnum þetta. En það ætlum við okkur að gera.“

Á þingflokksfundi Vinstri grænna var aðallega verið að afgreiða stjórnarfrumvörp og verður þeirri vinnu framhaldið í kvöld, og líklega á morgun. 

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sendi Vinstri grænum tóninn þegar hún sagði á sunnudag, að það væri tíma- og orkufrekt að smala saman „hoppandi meirihluta“ og að það væri svipað og að „smala köttum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert