Lífeyrissjóðir fjármagni byggingu fangelsis

Fangaklefi í Hegningarhúsinu.
Fangaklefi í Hegningarhúsinu. mbl.is/Júlíus

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að heimila auglýsingu nýs öryggisfangelsis á höfuðborgarsvæðinu, að því gefnu að viðunandi fjármögnum fáist. Meðal annars verður leitað til lífeyrissjóða um fjármögnun, en verði sú leið farin eignist ríkið húsnæðið að ákveðnum tíma liðnum. Ráðgert er að selja Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og fangelsið í Kópavogi.

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, segir að ef fjármögnun fáist sé um mjög stórt skref að ræða. Hún tekur þó fram að fangelsismálayfirvöld verði einnig að geta ráðið við reksturinn án aukafjárveitinga. Í því ljósi er litið til þeirra fjárveitinga sem annars myndu fara til reksturs Hegningarhússins og fangelsisins í Kópavogi.

Ragna segir að í ráðuneytinu hafi fengist sú niðurstaða að nauðsynlegt sé að bæta við fangarýmum. Skoðað hafi verið að hagkvæmni þess að koma á fót öryggisfangelsi í einhverju húsnæði sem til er, enda nóg af lausu húsnæði, en samkvæmt útreikningum er ljóst að hagkvæmara er að byggja nýtt fangelsi. með því að sérhanna fangelsi er hægt að ná niður rekstrarkostnaði.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um fangelsismál segir m.a.: „Ákveði ráðuneytið í samstarfi við fjármálaráðuneytið og Framkvæmdasýslu ríkisins, að fylgja eftir niðurstöðum frumathugunar þarf m.a. að tryggja heppilega lóð og útbúa útboðsgögn vegna leigusamnings ef um einkaframkvæmd verður að ræða.“

Einnig kemur fram að einstaklingar sem biðu eftir því að hefja afplánun refsidóma voru þrefalt fleiri á síðasta ári en árið 2005 og meðalbiðtími eftir fangelsisvist tvöfaldaðist á tímabilinu.

Ríkisendurskoðun segir þá að til að unnt sé að vista afbrotamenn í samræmi við ákvarðanir dómstóla þarf að tryggja nægilegan fjölda nýrra gæsluvarðhalds‐ og afplánunarrýma sem uppfylla öryggiskröfur fangelsisyfirvalda.

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra.
Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert