500 tonna skötuselskvóta úthlutað

Skötuselur.
Skötuselur.

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, hefur gefið út reglugerð um sérstaka úthlutun aflaheimilda í skötusel samkvæmt lögum, sem sett voru á Alþingi nýlega og ollu miklum deilum. Í reglugerðinni kemur fram að úthlutað er sérstaklega 500 tonnum af skötusel gegn gjaldi á yfirstandandi fiskveiðiári að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun.

Heimilt er að úthluta á skip allt að 5 lestum í senn gegn greiðslu gjalds,  enda hafi viðkomandi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni. Fiskistofa annast þessa úthlutun aflaheimilda sem skal fara fram eigi síðar en 3. maí á grundvelli umsókna sem borist hafa stofunni eigi síðar en 26. apríl 2010. 

Verð á aflaheimildum skötusels er 120 kr. hvert kg og skal það greitt Fiskistofu fyrir úthlutun.  Framsal aflaheimilda sem úthlutað er samkvæmt reglugerð þessari er óheimilt.

Þá hefur ráðherra einnig gefið út reglugerð um veiðar á skötusel í net og fjallar hún um ýmis atriði er varða umgengni á skötuselsveiðum.  Samkvæmt henni er óheimilt að stunda veiðar með skötuselsnetum á tímabilinu 1. janúar - 30. apríl. Þá er ekki  heimilt á sama tíma að stunda netaveiðar á skötusel og netaveiðar á þorskfiski.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert