Fréttaskýring: Stofnanir týna tölunni

Sumar af þeim tillögum um sameiningu ríkisstofnana sem liggja fyrir ganga þvert á ráðuneytin og byggjast á þeirri forsendu að ráðuneyti verði sameinuð og þeim fækkað úr tólf í níu.

Margar tillögurnar hafa verið mjög vel undirbúnar að sögn Ragnhildar Arnljótsdóttur, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu, m.a. með skoðanakönnunum meðal starfsmanna. Þær sýna að meirihluti starfsmanna sér fyrir sér möguleika á sameiningum og samlegð milli stofnana.

Ríkisstofnanir eru um 200 talsins og sagði forsætisráðherra um helgina raunsætt markmið að fækka stofnunum um 30-40% á næstu 2 til 3 árum.

Vinnan er þó mjög mislangt á veg komin en fjölmargar róttækar hugmyndir eru skoðaðar af fullri alvöru skv. upplýsingum innan stjórnarflokkanna. Ríkisfjármálahópar úr báðum stjórnarflokkunum funda reglulega og ætla að vera tilbúnir með ramma yfir aðgerðir í síðari hluta apríl.

Vinna við endurskipulagningu samgöngustofnana á vegum samgönguráðuneytisins er á lokasprettinum. Formleg sameining Keflavíkurflugvallar ofh. og Flugstoða ohf. er svo gott sem frágengin. Þá hefur staðið yfir undirbúningur frá sl. hausti, sem miðar að því að leggja niður Flugmálastjórn, Vegagerðina, Umferðarstofu og Siglingastofnun í núverandi mynd og búa til tvær stofnanir úr þessum fjórum. Öll stjórnsýslu- og eftirlitsverkefni munu þá heyra undir sérstaka stjórnsýslustofnun og framkvæmda- og þjónustuverkefnin verða færð undir nýja framkvæmdastofnun. Er þessi vinna sögð ganga hratt og vel. Ekki er gert ráð fyrir uppsögnum starfsfólks.

Einnig stendur til að sameina flugslysa-, sjóslysa- og umferðarslysanefnd í eina nefnd og í skoðun er sameining Landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar svo dæmi séu nefnd.

Af öðrum fyrirhuguðum breytingum má nefna áform um fækkun og stækkun sýslumannsumdæma, og aðskilnað þeirra frá löggæslu, stækkun löggæsluumdæma, sameiningar héraðsdómstóla og niðurlagningu Varnarmálastofnunar, sem samþykkt var í gær. Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið er með áform um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár sem fyrsta skrefið í stofnun skráar- og upplýsingatæknistofnunar.

Komast hjá beinum uppsögnum

Stjórnarþingmaður sem vel þekkir til þessarar vinnu segir margt undir, m.a. séu nefndar hugmyndir um sameiningu háskóla og framhaldsskólar séu heldur ekki undanskildir.

„Við höfum sett okkur skýr markmið um að það þurfi alltaf að sýna fram á samlegðaráhrif og hagræðingarmöguleika fyrirfram. Það verður ekki sameinað bara til að sameina heldur til að ná fram markmiðum um að gera þjónustuna skilvirkari og að hægt sé að veita hana með minni tilkostnaði,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. „Í þeim sameiningum sem framundan eru verður byggt á þeirri meginstefnu að skipulag verði skilvirkara og ferlar endurskoðaðir en reynt að komast hjá beinum uppsögnum. Fækkunin verður því einkum með þeim hætti að ekki verði ráðið í þau störf sem losna,“ segir Ragnhildur.

Varnarmálastofnun lögð niður

RÍKISSTJÓRNIN hyggst leggja fram frumvarp að breytingum á varnarmálalögum þar sem Varnarmálastofnun verður formlega lögð niður 1. janúar 2011.

Starfshópur fimm ráðuneyta sem skipaður var í desember að tillögu utanríkisráðherra hefur skilað frá sér skýrslu þar sem bent er á leiðir til að núverandi starfsþættir Varnarmálastofnunar verði hluti af nýrri borgaralegri stofnun, sem „sæi um öryggis- og varnarmál á grundvelli borgaralegra gilda innan áformaðs innanríkisráðuneytis“, að því er fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Setur hópurinn jafnframt fram tillögur um hvernig umræddir starfshættir rúmast innan skyldra stofnana þangað til nýtt ráðuneyti lítur dagsins ljós, þegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið annars vegar og dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hins vegar verða sameinuð í eitt ráðuneyti.

Varnarmálastofnun tók til starfa 1. júní 2008 og hefur rekstur íslenska loftvarnakerfisins, sem svo er nefnt, verið efst á blaði yfir helstu verkefni þess. Fastráðnir starfsmenn hafa verið um 54.

Vill lesa skýrsluna fyrst

Ellisif Tinna Víðisdóttir, forstjóri Varnarmálastofnunar, kvaðst ekki vilja tjá sig um efni skýrslunnar fyrr en hún hefði lesið hana, en hún hafði ekki tök á því í gær.

Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi Varnarmálastofnunar, gaf hins vegar kost á samtali en hún sagði aðspurð að verkefnin færist frá stofnuninni þegar áðurnefnt frumvarp verður að lögum.

Reiknað sé með að flest verkefnin færist tímabundið til utanríkisráðuneytisins og að verulegur hluti starfsmanna stofnunarinnar muni því áfram vinna saman að verkefnunum sem þangað færist.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að í frumvarpinu sé ákvæði sem tryggi að starfsfólkinu verði boðið starf hjá þeim ríkisstofnunum sem taka við verkefnum Varnarmálastofnunar.

Svanborg kveðst vonast til að þetta verði efnt. baldura@mbl.is

Í hnotskurn
» Umfang aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálunum sem grípa þarf til á næsta ári verður um 50 milljarðar kr.
» Að óbreyttu þarf að bæta afkomu ríkissjóðs um 30 milljarða á árinu 2012 og 20 milljarða 2013.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert