Gosslóðirnar opnaðar aftur

Gosið á Fimmvörðuhálsi séð úr lofti í morgun.
Gosið á Fimmvörðuhálsi séð úr lofti í morgun. Ernir Eyjólfsson

Ákveðið hefur verið að opna aftur fyrir umferð inn í Þórsmörk, en fólk er sérstaklega beðið um að hafa varann á sér þegar farið er yfir Hvanná þar sem aðstæður gætu breyst með skömmum fyrirvara, en hraun rennur nú efst í Hvannárgili.

Þetta er niðurstaða fundar Almannavarnanefndar Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu ásamt almannavarnadeild ríkislögreglustjórans í samráði við vísindamenn til að meta nýja stöðu í eldstöðinni á Fimmvörðuhálsi eftir að ný gossprunga opnaðist þar í gær.

Göngufólki frá Þórsmörk er heimilt að fara að Morinsheiði en bannað er að fara um Heljarkamb og upp á Bröttufönn. Þá er gönguleiðin frá Skógum upp á Fimmvörðuháls opin á nýjan leik en umferð vélknúinna farartækja upp Skógaheiði er aðeins ætluð lögreglu og björgunarsveitum 

Leiðin upp á Mýrdalsjökul frá Sólheimajökli er opin en hún er aðeins fær mikið breyttum jeppum.  Sprungur eru í grennd við akstursleiðina upp jökulinn og þurfa ökumenn að vera meðvitaðir um það. Öll almenn umferð gangandi og vélknúinna faratækja er bönnuð í 1 km radíus frá eldstöðinni og nær það einnig til leiðarinnar að Hrunagili (við hraunfossinn) frá Fimmvörðuhálsi.  Hættusvæði er áfram skilgreint í 5 km radíus frá eldstöðinni og þeir sem fara þar um gera það á eigin ábyrgð.

Almannavarnir minna á að mikilvægt sé að fólk sem er á ferð um svæðið virði lokanir og fari eftir fyrirmælum og leiðbeiningum frá lögreglu og björgunarsveitarfólki sem er á staðnum. Gripið er til þessa ráðstafana til þess að sem minnst hætta sé á að lífi og heilsu fólks sé ógnað en um leið að gefa áhugasömum kost á því að sjá eldstöðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert