„Þetta eru hryðjuverkamenn“

Kristján Loftsson í Hvalfirði
Kristján Loftsson í Hvalfirði RAX

Farið var með um 140 tonn af langreyðakjöti í land í Rotterdam eftir að hópur hollenskra grænfriðunga hlekkjaði sig við landfestar flutningaskips í höfninni. Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, er hafnaryfirvöldum reiður fyrir lélega öryggisgæslu. Hann segir kjötið flutt aftur til Íslands verði töf í Hollandi.

Grænfriðungar greindu frá því á vefsvæði sínu að hópur þeirra hefði verið handtekinn eftir aðgerðir í Rotterdam. Einnig fullyrtu þeir að um borð í flutningaskipinu hefðu verið sjö gámar af langreyðakjöti á leið til Japan.

Kristján staðfestir að þetta sé rétt. Hann áréttar einnig að öll skjöl hafi verið í lagi og því ekkert óeðlilegt á ferð. „Þetta eru bara hryðjuverkamenn,“ segir Kristján sem er harðorður í garð hafnaryfirvalda í Rotterdam „Það geta bara allir vaðið þarna upp. Og hefðu þess vegna getað sprengt upp skipið.“

Kristján segist ekki viss um hvað gerist næst en óttast að Hollendingar hafi beygt sig fyrir grænfriðungum. Hann segir að kjötið verði flutt aftur til Íslands og flutt aðra leið til Japans ef einhverjar tafir verða í Hollandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert