Ráðherra ætlar að áminna forstjóra

Húsnæði Sjúkratrygginga Íslands.
Húsnæði Sjúkratrygginga Íslands.

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, hefur sent Steingrími Ara Arasyni, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, bréf þar sem fram kemur að hún áformar að áminna hann fyrir brot á almennum starfsskyldum ríkisstarfsmanna.

Fram kemur í bréfi ráðherra, sem Steingrímur Ari hefur sent fjölmiðlum, að ástæðan sé sú að reglugerð hafi verið sett 5. mars um þátttöku sjúkratrygginga í nauðsynlegum tannlækninga- og tannréttindakostnaði vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa.

Segir Álfheiður að engar umsóknir hafi enn verið afgreiddar 27. mars og fram hafi komið á fundi fjárlaganefndar Alþingis, að Steingrímur Ari hafi leitað til ríkisendurskoðanda vegna reglugerðarinnar vegna þess að hann telji reglugerðinni ábótavant hvað varðar fjárhagsleg skilyrði.

„Ég tel að þér hafi borið að leita fyrst til ráðuneytis eða ráðherra ef þú taldir fyrrgreindri reglugerð ábótavant að einhverju leyti. Með því að leita ekki beint til ráðuneytisins hafir þú brotið gegn góðum starfsháttum og hollustu- og trúnaðarskyldum þínum og það hafi haft í för með sér trúnaðarbrest milli þín og ráðherra," segir í bréfi Álfheiðar, sem gefur Steingrími Ara frest til 13. apríl til andmæla.

Steingrímur Ari svaraði bréfi Álfheiðar í dag og segir m.a. að hann telji sig ekki eiga annan kost en að leita ráða hjá sér reyndari mönnum, opinbera áform ráðherra og svarbréfið og vinna síðan málið áfram fyrir opnum tjöldum.  Einungis þannig geti hann sýnt ráðherranum og embætti hans lögboðna hollustu og trúnað.

Steingrímur Ari spyr m.a. í bréfinu hvort það geti raunverulega verið að hann sem forstjóri Sjúkratrygginga Íslands hafi brotið af sér með því að leita ráða hjá ríkisendurskoðanda varðandi fjárhagsleg málefni sem varða þá stofnun, sem hann er í forsvari fyrir.

„Getur það verið að ef ég leita aftur til ríkisendurskoðanda út af sama máli að þá beri ráðherra að veita mér lausn frá starfi? Eru einhver fordæmi fyrir því í íslenskri stjórnsýslu að ráðherra áminni forstjóra fyrir brot í starfi vegna þess að forstjórinn vildi vanda til verka og vera vel undirbúinn fyrir fund með ráðherra?" segir m.a. í bréfi Steingríms Ara.

Steingrímur Ari Arason tók við embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands árið 2008 þegar stofnunin tók til starfa í október það ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert