Tók hana á öxlina

Margir leggja leið sína að gosstöðvunum þessa dagana.
Margir leggja leið sína að gosstöðvunum þessa dagana. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég tók hana á öxlina og bar hana fyrsta spölinn og síðan skiptumst við á,“ segir Guðjón Örn Björnsson, félagi í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Hann tók þátt í að bera konu sem hafði snúið sig á ökkla á leið upp Morinsheiði í gærkvöldi, niður snarbratta hlíð að lendingarstað björgunarþyrlu.

Guðjón var með fleira fólki á leið á gosstöðvarnar, á eigin vegum að þessu sinni. Á leiðinni á Morinsheiði er snjófönn, troðin eftir fótspor margra göngumanna. Þar hafði kona fallið og snúið ökkla.

Björgunarsveitarmenn voru búnir að spelka fótinn þegar Guðjón kom að og björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir án þess að finna heppilegan lendingarstað. 

Guðjón segir að þeir hafi beðið um að þyrlan lenti þarna fyrir neðan, þar sem er sléttara og ákveðið að bera konuna niður. Hinn kosturinn var að fá börur úr þyrlunni til að bera hana í en það hefði tekið lengri tíma.

Leiðin niður að þyrlunni er eftir einstigi með snjó. „Við vorum á broddum og það var ekkert mál, hún er lítil og nett. Það þurfti að koma henni niður,“ segir Guðjón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert