Fréttaskýring: 110 km hraði leyfður á ákveðnum vegum?

Leyfilegt áfengismagn í blóði ökumanna lækkar skv. frumvarpinu.
Leyfilegt áfengismagn í blóði ökumanna lækkar skv. frumvarpinu. Júlíus Sigurjónsson

Fjölmargar breytingar á umferðarlögum er að finna í frumvarpi samgönguráðherra sem lagt var fram á Alþingi í seinustu viku. Um er að ræða heildarendurskoðun sem unnin var af nefnd sem skipuð var árið 2007. Drög voru kynnt sl. sumar og vöktu mikla athygli. Margar athugasemdir bárust og hefur frumvarpið nú verið lagt fram með fjölmörgum frekari breytingum.

Meðal veigamikilla breytinga er hækkun ökuleyfisaldurs úr 17 í 18 ár í áföngum á árunum 2012-2014

Tillaga um að ákveða megi hærri hraðamörk á tilteknum vegum eða allt að 110 km á klst. á ugglaust eftir að vekja athygli og deilur. Í gildandi lögum er að finna samsvarandi heimild sem miðuð er við 100 km hámarkshraða en hún hefur aldrei verið nýtt í framkvæmd.

Í athugasemdum frumvarpsins er þetta skýrt nánar. Áfram verði gerðar strangar kröfur um nýtingu þessarar heimildar, „þ.e. að aðstæður leyfi slíkan hraða og hann sé æskilegur til að greiða fyrir umferð. Þá mega veigamikil umhverfisöryggissjónarmið ekki mæla gegn nýtingu heimildarinnar. Það yrði verkefni ráðherra, að fengnum tillögum Vegagerðarinnar, [...] að setja nánari efnisreglur um þær tegundir vega sem hér koma til greina. Ljóst er að þar er fyrst og fremst átt við svokallaða „2x1“- eða „2x2-vegi“ utan þéttbýlis þar sem eru tvær akbrautir í eina átt og ein akbraut í gagnstæða átt eða tvær akbrautir í gagnstæðar áttir með vegriði milli akstursleiða. Í því sambandi getur ráðherra ákveðið á grundvelli reglugerðarheimildar 8. mgr. að hámarkshraða á slíkum vegum verði stjórnað með rafrænum skiltum sem búin verða sjálfvirkum skynjurum með tilliti til veðurs og annarra aðstæðna,“ segir í greinargerð.

Óbreytt er sú tillaga í frumvarpinu sem kynnt var í fyrra að leyfilegt áfengismagn í blóði ökumanns verður lækkað úr 0,5&perthou; í 0,2&perthou;.

Læknum skylt að gera trúnaðarlækni viðvart

Þá er gert ráð fyrir að komið verði á fót embætti trúnaðarlæknis Umferðarstofu sem á að meta aksturshæfni ökumanna, svo sem vegna aldurs og sjúkdóma.

Athygli vekur ákvæði um að læknum verði gert skylt að gera trúnaðarlækni Umferðarstofu viðvart ef hann telur vafa leika á því að handhafi ökuréttinda fullnægi tilteknum skilyrðum.

Hertar eru reglur um notkun farsíma og lagt bann við því

að ökumaður sendi eða lesi smáskilaboð eða nýti aðra notkunarmöguleika farsímans, svo sem leiki, myndavélar, tölvupósthólf o.s.frv. á meðan á akstri stendur.

Hámarkssekt í 500 þúsund

Kveðið er á um nokkrar verðhækkanir. Hækka á hámarkssekt vegna umferðarlagabrota úr 300.000 kr. í allt að 500.000 kr. verði frumvarpið að lögum. Þá stendur til að hækka gjald fyrir einkamerki bifreiðar úr 25.000 kr. í 50.000 kr.Uppi eru áform um að fjölga öryggismyndavélum um 10 á ári næstu þrjú árin þannig að þær verði orðnar 40 árið 2013. Stofnkostnaður við hverja öryggismyndavél er um 20 milljónir króna Við það aukast stofnkostnaðarútgjöld ríkissjóðs um 200 millj. á ári næstu þrjú ár.Verði frumvarpið lögfest fá sveitarfélög heimild til að leggja allt að 20 þús. kr. gjald á eigendur ökutækja með negldum hjólbörðum.

Ökumenn sem aka inn á gjaldskylt svæði geta keypt leyfi fyrir einstök skipti í stað þess að þurfa að kaupa leyfi fyrir allt tímabilið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert