Vilja draga úr umferðarhraða

Borgarfulltrúar vilja að græni kallinn kvikni strax og ýtt er …
Borgarfulltrúar vilja að græni kallinn kvikni strax og ýtt er á hnapp á gangbrautarljósum.

Ólík sýn kom fram á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag á tillögu frá meirihlutanum um að grípið verði til aðgerða til að draga úr umferðarhraða í hverfum borgarinnar. Tillagan var þó á endanum samþykkt með atkvæðum allra borgarfulltrúanna 15.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, mælti fyrir tillögunni og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sögðu tillagan væri af hinu góða, einkum ákvæði í henni um að forritun gönguljósa verði breytt þannig að græni kallinn við á gangbrautarljósum kvikni strax og gangandi vegfarendur ýta á hnappinn á ljósunum í stað þess að bíða þurfi eftir samstillingu bílaumferðar.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, sagði hins vegar að tillagan væri aðeins sýndarmennska og bætti litlu sem engu við það sem þegar hefði verið samþykkt.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði að tillagan væri hreint ekki sýndarmennska heldur fæli í sér raunveruleg framfaraskref og með henni væri verið að stíga skref í þáa átt að breyta umferðarmenningunni í borginni. Sagðist hann ekkert skilja í því hvers vegna Sóley hefði „brjálast" yfir tillögunni. 

Vilhjálmur Þ. Vilhjálsson, forseti borgarstjórnar, bað borgarfulltrúa að gæta hófs í lýsingarorðum og Sóley sagðist ekki vera brjáluð en viðurkenndi að hún væri reið yfir því að, borgarfulltrúar meirihlutans þættust vera að efla öryggi gangandi vegfarenda með tillögu, sem ekki væri neitt neitt. „Meirihlutinn er að sýnast og yfir því er ég reið," sagði Sóley.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert