Fréttaskýring: Augljós brot á Genfarsamningunum

Út frá svona myndefni var ákveðið að skjóta á fólkið.
Út frá svona myndefni var ákveðið að skjóta á fólkið.

„Ég sé ekki að þyrluflugmennirnir hafi nokkra ástæðu til að álykta að bílstjórinn sé óvinur,“ segir Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins, um myndband sem Wikileaks hefur birt af árás Bandaríkjahers á hóp fólks í Bagdad í Írak árið 2007. Illa særður og óvopnaður maður sést þar reyna að skríða í var, bíll kemur upp að og bílstjórinn reynir að hjálpa honum. Þá fella þyrluflugmenn þá báða og skjóta á bílinn, sem í er fleira fólk, þar á meðal börn. „Það er ekki hægt að sjá annað en að þetta sé mjög augljóst brot á Genfarsamningunum,“ segir Þórir.

Genfarsamningar eru skýrir

Samningarnir fjórir eru mjög skýrir um svona aðstæður. Þriðja grein þeirra allra er samhljóða. Þar segir að ávallt og hvarvetna sé bannað að beita þá ofbeldi sem ekki taka beinan þátt í hernaðaraðgerðum, eða hafa lagt niður vopn, né heldur þá sem eru óvígfærir. Þeir skuli í hvívetna hljóta mannúðlega meðferð, án nokkurs konar mismununar. Einnig er sérstaklega tekið fram að særðum mönnum og sjúkum skuli safna saman og veita umönnun.

Starfsreglur hersins sem Wikileaks hefur einnig birt eru áþekkar Genfarsamningunum. „Herforingi, eða sá sem tekur ákvarðanir á staðnum, þarf að vega hernaðarlega nauðsyn þess að skjóta gagnvart meðalhófsreglunni og gera greinarmun á óvinahermönnum og almennum borgurum. Af þessum óvinahermönnum þarf, með einhverjum undantekningum reyndar, að stafa ógn til þess að leyfilegt sé að skjóta þá,“ segir Þórir. Ekki nægir að talið sé líklegt að óvinir séu á ferðinni.

„Það sem kemur upp í hugann þegar maður horfir á þetta myndband er hvort þarna hafi verið brýn hernaðarleg nauðsyn að skjóta á fólk, sem þyrluflugmenn áttu erfitt með að ákvarða að væru óvinir,“ segir Þórir. „Þetta vekur spurningar um það hvernig hægt er að heyja stríð úr fjarlægð með eins konar fjarstýringum,“ bætir hann við.

Myndbandið vakti reiði og hneykslan

Myndbandið var birt á flestum stærri vefmiðlum vestanhafs í fyrradag. Vakti það víðast hörð viðbrögð og skrifuðu hundruð og sums staðar nokkur þúsund manns athugasemdir við fréttirnar. Flestir netverjar sögðust hneykslaðir og reiðir, en inni á milli bentu aðrir á að ekki væri hægt að dæma atburðinn út frá myndbandinu einu saman.

Mest var reiðin vegna hugarfars bandarísku hermannanna, sem í myndbandinu hreykja sér af drápunum, kalla fórnarlömbin illum nöfnum og lýsa því hve mjög þá langi til að skjóta þau. Wikileaks undirbjó birtinguna á Íslandi. Að sögn Urðar Gunnarsdóttur hjá utanríkisráðuneytinu höfðu erlend stjórnvöld engar athugasemdir gert við ráðuneytið í gær.

Myndbandið á vef Wikileaks

Tilkynning Bandaríkjahers um málið á sínum tíma

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert