Sviptingar í bensíninu

Friðrik Tryggvason

Sviptingar hafa verið í verðlagningu á bensíni og dísilolíu á markaðnum hér heima síðustu daga. Félögin hafa hækkað og lækkað verðið á víxl.

Vegna hækkana á hráolíuverði á heimsmarkaði yfir páskana hækkaði Olís verð á bensíni og olíu í fyrradag, bensínið hækkaði um fjórar krónur lítrinn og fór í 212,90 kr. í sjálfsafgreiðslu. Skeljungur fylgdi í kjölfarið. N1, Atlantsolía og Orkan biðu átekta. „Heimsmarkaðsverðið hefur verið á mikilli siglingu, ég vildi bíða og sjá hvort það myndi jafna sig,“ segir Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, um þá ákvörðun að hækka ekki í fyrradag.

Það varð til þess að Skeljungur og Olís lækkuðu verðið aftur í gær. Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, segir að félagið sem er með hæsta verðið tapi viðskiptum. Því verði að lækka verðið aftur, ef aðrir fylgja ekki í kjölfarið. Þetta hafi gerst í gær. Nú er Skeljungur með lægsta verðið á þjónustustöðvunum, 208,90 kr. í sjálfsafgreiðslu, því skömmu eftir að Skeljungur lækkaði sitt verð hækkaði N1 upp í sama verð og Olís var þá komið í. Einar Örn tekur fram að fullt tilefni hafi verið til að hækka verðið í fyrradag en heimsmarkaðsverðið hafi lækkað örlítið í gær. Ef sú þróun haldi áfram gæti útsöluverðið staðist.

Örar verðbreytingar að undanförnu eru væntanlega til marks um aukna samkeppni á bensínmarkaðnum. Viðskipti hafa minnkað og meiri barátta er um hvern viðskiptavin en verið hefur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert