Ætlar að stefna skilanefnd Glitnis

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson.

Jón Ásgeir Jóhannesson, einn þeirra sem skilanefnd Glitnis hefur stefnt til greiðslu sex milljarða króna skaðabóta, ætlar að stefna skilanefndinni fyrir ærumeiðandi aðdróttanir sem fram koma í stefnu hennar og fyrir að hafa vísvitandi breytt tölvugögnum.

Fréttablaðið hefur eftir Jóni Ásgeiri að stefna Glitnis virðist eingöngu hafa það markmið að vera mannorðsmeiðandi. Þá sé engin tilviljun að hún komi fram nú skömmu áður en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verður birt. 

Í stefnunni er vitnað í fjölda tölvupósta, þar á meðal pósta frá Jóni  til Lárusar Welding, bankastjóra Glitnis, þar sem hann ýtir eftir ýmsum málum í bankanum og segir á einum stað: „Annars er kannski best að ég verði starfandi stjórnarformaður."

Jón segir við Fréttablaðið að þessi setning hafi verið grín en ekki hótun eins og látið sé liggja að í stefnunni. Það hafi verið augljóst á tölvupóstinum, enda broskarl fyrir aftan ummælin. Broskarlinn hafi hins vegar verið klipptur út í stefnu Glitnis til að gera setninguna tortryggilega.

Þá þvertekur Jón Ásgeir fyrir fyrir að hafa hagnast persónulega á láni Glitnis til Fons, félags Pálma Haraldssonar. Langstærstur hluti lánsins hafi farið í að greiða upp skuldir við bankann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert