Skollaeyrum skellt við varnaðarorðum greinenda

Davíð Oddson.
Davíð Oddson. mbl.is

Þegar horft er um öxl er engu líkara en að jákvæðar athugasemdir um uppbyggingu liðinna ára og vænlegar langtímahorfur af hennar sökum væru það eina úr skýrslum erlendra greinenda sem mark var tekið á innanlands en skollaeyrum hafi verið skellt við öllum varnaðarorðum um válega og síversnandi stöðu þjóðarbúsins. Þetta kemur fram í kafla undir heitinu Blikur á lofti (bls. 91-95)  í fyrsta bindi rannsóknarskýrslunnar.

Í skýrslunni er lýst mörgum af þeim framfaraskrefum sem stigin voru á undanförnum áratugum og eiga þátt í stórbættum lífskjörum almennings á Íslandi. Þar á meðal eru útfærsla fiskveiðilögsögunnar og ábyrg fiskveiðistjórnun, útbreidd verðtrygging lánsfjár og vaxtafrelsi, markaðsvæðing og brotthvarf hins opinbera úr atvinnurekstri, opnun hagkerfisins og afnám viðskiptahafta, uppbygging öflugs lífeyrissjóðakerfis, sem fjárfestir í vaxandi mæli í dreifðum eignasöfnum erlendis, og aukið sjálfstæði Seðlabankans. Allir þessir þættir stuðluðu að jákvæðri umfjöllun lánshæfismatsfyrirtækja, erlendra eftirlitsaðila eins og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

Í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 15. maí 2006 sagði í lauslegri þýðingu Seðlabanka Íslands að efnahagshorfur á Íslandi væru áfram öfundsverðar  og að stofnanir væru öflugar og stefnumótunarumgjörð sterk. Svo segir: „Hins vegar er vaxandi ójafnvægi í hagkerfinu áhyggjuefni um þessar mundir og við því þurfa stjórnvöld að bregðast tímanlega. Umfram eftirspurn, mikil og vaxandi verðbólga, mikill viðskiptahalli og mjög skuldsett heimili og fyrirtæki – einkum bankar – valda ókyrrð á fjármálamörkuðum sem ógnar stöðugleika til skamms tíma. Ef litið er um öxl, hefði mátt bregðast við þessum kringumstæðum með betur samhæfðum aðgerðum, með aðhaldssamari ríkisfjármálum og umbreytingu á Íbúðalánasjóði.“

Davíð Oddsson, þá einn af bankastjórum Seðlabankans, greip þetta á lofti og benti á það í ræðu sinni á ársfundi Landssambands lífeyrissjóða þann 18. maí 2006: „Fyrr í vikunni birti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn álit sérfræðinganefndar sem hér var á dögunum til reglubundinna viðræðna við fulltrúa íslenskra stjórnvalda. Í því kemur m.a. fram að staða Íslands sé öfundsverð þegar horft er til framtíðar. Stofnanir séu sterkar og hiðsama gildi um umgjörð efnahagsstefnunnar. Við ríkjandi skilyrði sé þörf á ströngu aðhaldi í peningamálum og ríkisfjármálum til þess aðdraga úr ójafnvæginu í þjóðarbúskapnum. Seðlabanki Íslands mun leggja sitt af mörkum í þeirri viðleitni."

Tónninn herðist

Í skýrslu AGS frá 13. júlí 2006 var aðeins búið að herða tóninn. „Although current imbalances need to be addressed resolutely, the medium-term outlook for the Icelandic economy remains highly favorable.“

Þessu viðhorfi sjóðsins um vænlegar langtímahorfur var lengi haldið á lofti. Á meðan ójafnvægið í efnahagslífinu jókst fluttist áherslan í greiningum sjóðsins á þau vandamál sem því fylgdu og þörfina á viðbrögðum en undirtektir voru litlar.

Í áliti sendinefndar sjóðsins 4. júlí 2008 er enn og aftur haldið í hinar jákvæðu langtímahorfur en þær eru skilyrtar um ýmsa þætti. Ekki er skortur á varnaðarorðum og ábendingum en öfundsverðu langtímahorfurnar eru í raun og veru það eina jákvæða sem eftir stendur.

Í september sama ár er enn dregið úr þó að enn sé bent á að langtímahorfur séu efnilegar og jafnvel öfundsverðar þrátt fyrir mikla óvissu og verulega áhættu á að fari á verri veg til skemmri tíma.

Dregur úr viðbrögðum

Eftir tímabundin viðbrögð banka og stjórnvalda við athugasemdum erlendra greinenda árið 2006 dró úr þeim um hríð. Árið 2008 var þó aftur tekið að bera á áhyggjum af vexti íslenska bankakerfisins, skuldsetningu þjóðarinnar, viðskiptahalla og fleiri merkjum um ójafnvægi sem kallaði á leiðréttingu. Bandaríski fjárfestingarbankinn Merrill Lynch hafði fylgst með slenskum bönkum um nokkurra ára skeið. Þann 24. júlí 2008 gaf Merrill Lynch út greiningu á íslenskum bönkum undir yfirskriftinni „Distress anddefault" (sem hefur tvíræða merkingu: „neyð og gjaldþrot" en einnig „neyð og aðgerðaleysi").

Þá hefur höfundur greiningarinnar, Richard Thomas, áhyggjur af getu íslenska ríkisins til að taka við bönkunum ef þess reynist þörf. Hans mat er að á þessum tíma, sumarið 2008, sé verið að verðleggja inn á mörkuðum þjóðnýtingu bankanna og greiðslustöðvun.

Ekki fór hátt um viðbrögð íslenskra ráðamanna við þessum ráðleggingum og bollaleggingum utan menntamálaráðherra sem taldi allt tal um þjóðnýtingu svo fráleitt að réttast væri að bjóða greinandanum upp á endurmenntun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert