Sprenging í útlánum til FL og Baugs eftir stjórnarskiptin í Glitni

BOB STRONG

Mikil breyting varð á útlánafyrirgreiðslum Glitnis til FL Group, Baugs Group og tengdra aðila eftir að stjórnarskipti urðu í bankanum vorið 2007. Þrátt fyrir að eigendur stóru bankanna þriggja og Straums-Burðaráss hafi verið meðal stærstu lántakenda þeirra allra og allir í þokkabót lánað mikið til Baugs og tengdra aðila, sker Glitnir sig úr að þessu leyti, að því er segir í 21. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Rannsóknarnefndin telur að Baugur, FL Group og Fons hafi fengið óeðlilega greiðan aðgang að lánsfé hjá Glitni banka hf. að því er virðist í krafti eignarhalds síns. Þá eru einnig sterkar vísbendingar um að Baugur og FL Group hafi reynt, í krafti eignar sinnar í bankanum, að hafa óeðlileg áhrif á stjórnendur hans.

Stjórnarskiptin í bankanum urðu eftir að aðilar tengdir Baugi og FL Group juku verulega við eignarhlut sinn. Á seinni hluta árs 2007 og í byrjun árs 2008 tæplega tvöfölduðust útlán móðurfélags Glitnis til Baugs og þeirra félaga sem töldust Baugi tengd samkvæmt aðferðafræði rannsóknarnefndar Alþingis. Útlánin fóru úr því að vera um 900 milljónir evra vorið 2007 í tæpa 2 milljarða evra ári síðar. Nokkuð stór hluti þessarar útlánaaukningar var til Baugs sjálfs og FL Group, sem var stærsti hluthafi bankans, en hæst fóru útlán til hópsins yfir 80% af eiginfjárgrunni bankans.

Svipað mynstur sést hjá fjárfestingarfélaginu Fons hf., sem átti í miklu samstarfi við Baug og FL Group og félögin áttu til að mynda sameiginleg fjárfestingarfélög. Mestur hluti útlánaaukningarinnar til Fons varð í ágúst 2007, eftir að verulega fór að þrengja að íslensku bönkunum og ekki síst Glitni.

Rétt fyrir fall bankanna leitaðist Glitnir við að gæta hagsmuna sinna gagnvart Landic Property ehf., vegna þeirrar stöðu sem bankinn taldi félagið vera komið í. Jón Ásgeir Jóhannesson brást ókvæða við sem aðaleigandi Stoða, stærsti eigandi Glitnis og Landic Property.

Í lok árs 2007 fékk Baugur víkjandi lán hjá öllum þremur stóru bönkunum, 5 milljarða króna í Landsbanka, 5 milljarða króna í Kaupþingi og 15 milljarða króna í Glitni.

Rannsóknarnefndin bendir í þessu sambandi á að dótturfélag Glitnis, Glitnir Sjóðir, keypti einnig verulega mikið af verðbréfum gefnum út af Baugi og FL Group. Á árinu 2008 lánuðu Sjóður 9 og Sjóður 1 Baugi og FL Group um og yfir 38 milljarða króna (300 milljónir evra 30. júní 2008).

Þar sem eignir þessara sjóða voru um 170 milljarðar króna á þessu tímabili var þetta rúmlega 20% af eignum sjóðanna. FL Group var stærsti skuldunautur Sjóðs 9 en næststærsti skuldunautur Sjóðs 1 á eftir Íbúðalánasjóði.

„Eins og fram kemur síðar bar það við að sjóðirnir keyptu útgáfur skuldabréfa frá þessum félögum í heild, en erfitt er að sjá að slíkt samræmist starfsemi verðbréfasjóða," segir í skýrslunni, 7. bindi, bls. 183.

Einnig er tekið fram að meðal stærstu lántakenda Glitnis voru aðilar tengdir Milestone ehf. annars vegar og BNT hf. hins vegar en aðilar tengdir þessum félögum voru fyrir áðurnefnd stjórnarskipti vorið 2007 stærstu eigendur bankans. Raunar áttu þessi félög einnig 7% hlut í bankanum eftir stjórnarskiptin í gegnum sameiginlegt félag sitt, Þátt International. Lán til Milestone ehf. og tengdra félaga komust hæst upp í 650 milljónir evra í mars 2008, en lán til BNT hf. voru um 300 milljónir evra allt árið 2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert