Húsnæðislánin voru „tómt rugl"

Haft er eftir fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, í skýrslu rannsóknarnefndara, að húsnæðislán bankanna, sem byrjað var að veita árið 2004, hafi verið „tómt rugl". Lánin hafi verið á of lágum vöxtum fyrir bankana og hann hafi ekki séð hvernig þetta ætti að vera gerlegt.

„En hvað áttirðu að gera? Þegar kerfið er hannað þannig að ef þú ferð í viðskipti þá ertu læstur næstu 40 ár. Hvað áttu að gera? Og þú bara ferð út í vitleysuna líka. Og ég var alltaf hissa á að Moody‘s sögðu ekki við mann: Eruð þið klikkaðir? Ég var alltaf að vona að þeir mundu setja eitthvert vit í galskapinn,“ er haft eftir Sigurjóni í skýrslu nefndar sem fjallaði um siðferðilega þætti hrunsins.

Í skýrslunni segir, að þegar síðan var hægt að taka lán á erlendum kjörum með mun lægri vöxtum en hér höfðu tíðkast töldu sumir sig hafa dottið í lukkupottinn. En þeir sem tóku lán í erlendri mynt á mektarárum íslensku krónunnar sitji nú uppi með lán sem hafa tvöfaldast og vel það.

Haft er eftir bæði Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og Sigurjóni Þ. Árnasyni, að fólki hafi verið ráðlagt frá erlendu lánunum enda hafi áhættan verið umtalsverð. Sigurjón segist hafa varað útibússtjóra við að halda þessum lánveitingum áfram. „En samt gerðist það af því að eftirspurnin var orðin svo gríðarleg. Þegar fólk er að kvarta yfir að það hafi fengið erlend lán og að þeim hafi verið otað að þeim, það er haugalygi“.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert