Börnum ekki vísað frá skólamötuneytum

Gripið var til ráðstafana til að tryggja að engum börnum …
Gripið var til ráðstafana til að tryggja að engum börnum yrði vísað frá skólamötuneytum. Rax / Ragnar Axelsson

Alrangt er að sum börn á Akureyri gangi um svöng á meðan að önnur fái mat líkt og frambjóðandi til komandi sveitastjórnarkosninga hefur haldið fram opinberlega. Þetta kemur fram í athugsasemdum sem Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri hefur sent frá sér.

„Aðstæður í samfélaginu eru sannarlega um margt óvenjulegar og ljóst að sú skylda hvílir á herðum bæjarstjórnar að tryggja velferð fjölskyldna sem takast á við erfiðar aðstæður. Þegar hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana og meðal þess sem ákveðið var strax í upphafi, var að tryggja að engum börnum yrði vísað frá skólamötuneytum þótt foreldrar ættu í erfiðleikum með að greiða fyrir þjónustuna. Þessari stefnu hefur verið framfylgt af skóladeild og grunnskólum bæjarins.

Samkvæmt upplýsingum frá skólastjórum grunnskólanna á Akureyri, ganga engin börn um svöng í grunnskólunum eða er vísað frá skólamötuneytum.
Nýtingin í skólamötuneytum grunnskólanna á Akureyri hefur verið mjög mikil undanfarin ár og hefur ekki breyst þrátt fyrir þær efnahagsþrengingar sem þjóðin gengur nú í gegnum. Sumir foreldrar hafa þó kosið að senda börn sín frekar með nesti í skólann en að nýta þjónustu mötuneytanna. Fylgst hefur verið vel með þessum börnum og þess gætt að nesti þeirra sé fullnægjandi. Haft hefur verið samband við foreldrana ef svo hefur ekki reynst vera og viðeigandi lausn fundin.
Foreldrar grunnskólabarna greiða 307 kr. fyrir hverja máltíð í skólamötuneytunum sem gerir að jafnaði um 6.000 kr. á mánuði. Ef skólamáltíðir eiga að vera nemendum að kostnaðarlausu, sem vissulega væri æskilegast, þá þarf að finna leiðir til að brúa þann kostnað sem af því hlytist og nemur um 150-200 milljónum króna á ári,“ segir í tilkynningunni.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert