Hátíðardagskrá til heiðurs Vigdísi

VIGDÍS Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands, verður sæmd heiðursdoktorsnafnbót hjá Deild …
VIGDÍS Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands, verður sæmd heiðursdoktorsnafnbót hjá Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Hugvísindasvið Háskóla Íslands á morgun. Ómar Óskarsson

Heiðursdoktorsnafnbót, hátíðardagskrá og vísindaráðstefna eru meðal atburða sem staðið verður fyrir til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur á stórafmæli hennar á morgun.

Vigdís Finnbogadóttir verður sæmd heiðursdoktorsnafnbót hjá Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Athöfnin hefst kl. 11 í Hátíðasal Háskóla Íslands og er öllum opin.

Ásdís R. Magnúsdóttir, deildarforseti, stýrir athöfninni og til máls taka þau Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Páll Skúlason, prófessor og fyrrverandi rektor, Jón Torfi Jónasson, forseti Menntavísindasviðs, Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs og Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Vigdís Finnbogadóttir ávarpar samkomuna og kór Kársnesskóla syngur

Einnig verður efnt til hátíðardagskrár í Háskólabíói á morgun. Verður húsið  opnað kl. 15:30 og boðið verður upp á kaffi. Dagskráin, sem er öllum opin á meðan húsrúm leyfir, hefst kl. 16.30. Útvarpað og sjónvarpað verður beint frá athöfninni og því verður lokað inn í salinn kl. 16.20. 


Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, setur dagskrána kl. 16:30 og í kjölfarið munu Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, ávarpa Vigdísi, en Háskóli Íslands, stjórnvöld og Reykjavíkurborg standa að afmælishátíðinni ásamt fjölda félagsamtaka sem tengjast starfsvettvangi og hugðarefnum Vigdísar.

Þá tekur við dagskrá í myndum, tali og tónum undir listrænni stjórn Kolbrúnar Halldórsdóttur, leikstjóra. Dagskráin er afmælisgjöf til Vigdísar frá listamönnum og þeim sem að hátíðardagskránni standa, en henni lýkur laust fyrir kl. 18 með ávarpi afmælisbarnsins. 

Allir sem vilja heiðra Vigdísi á þessum merkisdegi hennar eru hvattir til að mæta  á afmælishátíðina.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert