Öskufall berst austur yfir

Hlaupið í Markarfljóti er í rénun.
Hlaupið í Markarfljóti er í rénun. mbl.is Ómar Óskarsson

Seinna hlaupið í Markarfljóti er nú í rénun eftir að hafa náð hámarki á níunda tímanum í kvöld. Öskufall er hins vegar farið að aukast fyrir austan í Meðallandi, Skaftártungum og neðri hluta Landbrots. Rekja má kolsvartan strók sem lagði frá gosstöðvunum fyrr í kvöld til gjóskunnar.

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli hefur verið haft samband við bændur í Meðallandi og Skaftártungum og eru þeir nú að taka búfénað inn. Þá hafa Almannavarnir sent út tilkynningu þar sem búfjáreigendum á áhrifasvæði eldgossins er bent á að fylgjast grannt með mögulegu öskufalli, t.d. með því að leggja út hvítan disk.

Á vef Almannavarna kemur þá fram að gangur eldgossins í Eyjafjallajökli sé stöðugur. Í dag og í kvöld hafi gengið á með sprengivirkni sem fylgi öskufall. „Vart hefur orðið við öskufall allt umhverfis Eyjafjallajökul og í sveitunum fyrir austan hann. Öskufallið virðist vera nokkuð breytilegt frá einu svæði til annars og það vex einnig og dvínar á víxl. Sumsstaðar hefur öskufall verið það mikið um tíma að það hefur haft mikil áhrif á skyggni. Sumsstaðar hefur það verið svo mikið að skyggni hefur farið niður í um 50 metra. Ökumenn eru beðnir um að sýna sérstaka aðgát vegna þessa“ segir á vefnum.

Rýmingu var aflétt að hluta fyrr í kvöld þó að þau svæði sem eru næst flóðafarvegunum þ.e. við Austur-Landeyjar og undir Eyjafjallajökli, verði áfram rýmd í nótt. Áfram verða vegir lokaðir og takmarkanir á umferð.

Vel verður fylgst með áfram í nótt og verður bæði vettvangs- og aðgerðastjórn á Hvolsvelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert