Gjá milli Seðlabanka og FME

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Mbl.is/ Kristinn

Umgjörð stofnana sem sinntu eftirliti með fjármálakerfinu var mikilvægur þáttur í bankahruninu. Gjá var á milli Fjármálaeftirlits og Seðlabankans og upplýsingar um samanlagða áhættu bankakerfisins féllu á milli skips og bryggju. Þetta segir Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Tryggvi tók til máls í umræðunni um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hann sagði höfunda skýrslunnar hafa sést yfir einn þátt sem hann telur með þeim mikilvægari í aðdraganda hrunsins. Það er stofnanaumgjörðin sem varð til þegar eftirlit með bönkum var aðskilið starfsemi Seðlabanka Íslands, þ.e. með tilkomu Fjármálaeftirlitsins.

„Fjármáleftirlitið fékk í grófum dráttum það hlutverk að hafa með höndum neytendavernd og eftirlit með einstökum fjármálastofnunum. [...] Seðlabankinn fékk aftur á móti það hlutverk að fylgjast með kerfisáhættu á fjármálamörkuðum og tryggja fjármálalegan stöðugleika á Íslandi. Fjármálaeftirlitið hafði eftirlit með trjánum en Seðlabankinn var skógarvörðurinn,“ sagði Tryggvi og bætti við að þetta hafi orðið til þess að eftirlit með bönkunum var ekki sinnt sem skyldi.

Til skýringar benti Tryggvi á, að fulltrúar Fjármálaeftirlitsins hafi farið inn í bankana og viðað að sér upplýsingum. Ekki hafi verið annað að sjá á þeim en að farið væri að lögum og reglum. Gefin var í kjölfarið út tilkynning um að ekki væri hægt að gera athugasemdir við starfsemi bankanna og þeir stæðust álagspróf.

Seðlabankinn, sagði Tryggvi, hafði hins vegar ekki þær upplýsingar sem FME hafði undir höndum. Hann skoðaði efnahagsreikninga bankanna, tilkynningar FME og aðrar upplýsingar. Eftir þeim gefur hann út tilkynningu um að fjármálastöðugleiki sé stöðugur. „Augljóst er að hér hafa fallið á milli skips og bryggju upplýsingar um samanlagða áhættu bankakerfisins. Seðlabankinn vissi ekki að trén væru sýkt, því að skógurinn virtist heilbrigður úr fjarlægð. FME sá hins vegar að nokkur tré voru sýkt en taldi að skógurinn væri heilbrigður.“

Tryggvi segir að þetta hafi leitt til þess að óæskileg kerfisáhætta byggðist upp í kerfinu og það orðið viðkvæmari en ella. Lausnin er sú, að sameina hefði átt FME og Seðlabankann til að efla eftirlit.

Þetta sagði Tryggvi að skýrsluhöfundar hefðu ekki komið auga á, þ.e. að stofnanaumgjörðin hafi átt stóran hlut í hruninu.

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið mbl.is/Eyþór
Seðlabankinn.
Seðlabankinn. Júlíus Sigurjónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert