Þingmenn minntust Þorvalds Garðars

Þorvaldur Garðar Kristjánsson
Þorvaldur Garðar Kristjánsson

Forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, minntist Þorvalds Garðars Kristjánsson, fyrrverandi alþingismanns og forseta sameinaðs Alþingis við upphaf þingfundar í morgun.
 
„Þorvaldur Garðar Kristjánsson, fyrrverandi alþingismaður og forseti sameinaðs Alþingis, varð bráðkvaddur á heimili sínu í gær. Hann var á 91. aldursári.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson var fæddur á Kirkjubóli í Valþjófsdal í Önundarfirði 10. okt. 1919. Foreldrar hans voru Kristján Sigurður Eyjólfsson, sem lést þegar Þorvaldur var á 2. ári, og kona hans, María Bjargey Einarsdóttir. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri lýðveldisvorið 1944. Embættisprófi í lögum lauk hann við Háskóla Íslands 1948 og var við framhaldsnám í University College í Lundúnum 1948—1949. Hann öðlaðist réttindi héraðsdómslögmanns og síðar hæstaréttarlögmanns.

Eftir nám varð Þorvaldur forstöðumaður hagdeildar Útvegsbanka Íslands í áratug eða þar til hann varð árið 1960 framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og síðar þingflokks sjálfstæðismanna. Var hann mjög handgenginn Ólafi Thors, formanni flokksins, meðan hans naut við.

Félagshneigð Þorvalds kom snemma fram. Hann var formaður Orators, félags laganema, formaður Stúdentafélags Reykjavíkur, formaður Heimdallar og formaður Varðar áður en hann varð alþingismaður.
                Stjórnmálaafskipti hans hófust er hann fór í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heimabyggð sinni, Vestur-Ísafjarðarsýslu, árið 1952. Hann var fyrst kosinn á Alþingi í sumarkosningunum 1959, sat þá um skamma hríð, var á ný körinn í Vestfjarðakjördæmi 1963 og sat þá eitt kjörtímabil, en frá 1971 sat hann samfellt á Alþingi í 20 ár, lét af þingmennsku í kosningunum 1991. Tvívegis á árunum 1960-1961 sat hann sem varamaður á Alþingi. Hann sat á 29 þingum alls.

  Áður en Þorvaldur tók sæti á Alþingi var hann kjörinn borgarfulltrúi í Reykjavík, 1958—1962.
                Þorvaldur Garðar Kristjánsson lét sig húsnæðismál miklu skipta; sat í húsnæðismálastjórn og í stjórn Byggingarsjóðs verkamanna nær hálfan annan áratug. Enn fremur hafði hann mikil afskipti af orkumálum og sat lengi í orkuráði. Flutti hann margar tilögur á þingi um þessi mál, auk samgöngumála, og hafði mikil áhrif. Þá lét hann málefni Ríkisútvarpsins sig miklu skipta og sat í útvarpsráði í tvo áratugi. Á þingmannsferli sínum var Þorvaldur lengi fulltrúi Íslands á þingi Evrópuráðsins og var oft einn af varaforsetum þingsins.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson hafði mikinn áhuga á störfum og starfsháttum Alþingis, þegar á fyrstu þingárum sínum. Hann var kjörinn forseti efri deildar 1974 og sat þá í fjögur ár, og kosinn á ný forseti, þá úr stjórnarandstöðu, síðla árs 1978. Tvö full kjörtímabil var hann varaforseti deildarinnar. Árið 1983 var hann kjörinn forseti sameinaðs Alþingis og gegndi því embætti í 5 ár. Hann var röggsamur á forsetastól og lét sér mjög annt um virðingu Alþingis og hélt á loft af meiri þunga en áður þekktist mikilvægri stöðu þjóðþingins í stjórnskipan okkar og sögu. Hann beitti sér fyrir umbótum í húsakosti þingsins og rekstri þess og var athafnasamur í embætti. Árið 1985 hafði hann forustu um heildarendurskoðun þingskapa og sér enn stað í störfum Alþingis margra nýmæla sem þá urðu til. Á forsetatíð hans var Ríkisendurskoðun færð undir Alþingi frá Stjórnarráðinu og stofnað embætti umboðsmanns Alþingis. Lét Þorvaldur sér mjög annt um starf þessara stofnana. Alþingi stendur í þakkarskuld við hann fyrir mikilsvert framlag til starfa þingsins á mörgum sviðum.

Að lokinni þingmennsku 1991 starfaði Þorvaldur í forsætisráðuneytinu um nokkurra ára skeið og vann þar að ýmsum verkefnum.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson bjó við kröpp kjör í æsku og átti við veikindi að stríða á yngri árum en með harðfylgi tókst honum að komast til mennta bæði hér og erlendis. Þrautseigjan fylgdi honum æ síðan og dugði honum vel. Hann var röskur til allra verka og skipulagður í störfum sínum. Rökfastur var hann og fylginn sér á þingi. Hann sinnti kjósendum sínum á Vestfjörðum af mikill kostgæfni og rak erindi þeirra seint og snemma hér í höfuðborginni. Hann koma að öllum framfaramálum Vestfirðinga á þingmannsárum sínum og hafði forustu um mörg þeirra. Þorvaldur var höfðinglegur í framgöngu, sögumaður góður og hafði ríka kímnigáfu. Hann naut starfa sinna á Alþingi og fannst það gott hlutskipti að vinna til heilla þjóð sinni og samborgurum sem alþingismaður.

Ég bið þingheim að minnast Þorvalds Garðars Kristjánssonar með því að rísa úr sætum."             

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert