Flug lamað annan daginn í röð

Allt flug verður bannað í breskri lofthelgi í dag og verður í fyrsta lagi heimilt að fljúga til Bretlands eftir miðnætti, samkvæmt tilkynningu frá NATS, fyrirtækis sem annast flugumferðarþjónustu í Bretlandi. Þar standa vonir til þess að hægt verði að heimila flug í Skotlandi og Norður-Írlandi í kvöld vegna hagstæðrar veðurspár fyrir þetta svæði að teknu tilliti til ösku í háloftunum.

Líkt og fram kom í morgun þá hefur Icelandair aflýst öllu flugi til sex borga í Evrópu í dag.

Finnska flugfélagið Finnair hefur aflýst öllu flugi þangað til klukkan 15 á morgun vegna eldgossins.

Á vef BBC kemur fram að staðan sé svipuð í stórum hluta Evrópu í dag vegna ösku frá eldgosinu í Eyjafjallajökli.

Hundruð þúsunda flugfarþega komust ekki leiðar sinnar í gær vegna þessa og er óttast að þetta geti haft víðtæk áhrif á allt flug um helgina, þar á meðal flug til Norður-Ameríu og Asíu.

Í gær var flugvöllum í Bretlandi, Írlandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Belgíu og Hollandi lokað. Í gær var 24 flugvöllum lokað í Frakklandi, þar á meðal helstu flugvöllum landsins. Í Þýskalandi var flugvöllunum í Berlín og Hamborg lokað í gærkvöldi. Frankfurt flugvellinum var lokað í morgun.

Flestir flugvellir eru lokaðir í Póllandi og svipað er uppi á teningnum í Austurríki. Hins vegar hefur verið hægt að hefja flug um suðurhluta Svíþjóðar.

Á sunnudag stendur til að útför Lech Kaczynski forseta Póllands fari fram og er nú óttast að ef áfram verða hömlur á flugi fram á helgina að það geti  haft áhrif á hvort þjóðhöfðingjar komist til þess að verða viðstaddir útförina.

Eins hafa einhverjir þurft að afboða komu sína í sjötugsafmæli Margrétar Þórhildar Danadrottningar í dag. Meðal þeirra er Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands en forsetafrúin er hins vegar í Danmörku og tekur því þátt í hátíðarhöldunum.

Veðurspáin fyrir næsta sólarhring: Vestlæg átt 8-15 sunnantil og skúrir eða slydduél, en gengur í norðaustan 10-18 m/s um landið norðanvert með slyddu og síðar snjókomu. Dregur úr vindi norðan- og vestanlands síðdegis, dálítil él norðanlands, en léttir til fyrir vestan. Snýst í norðaustan 10-15 með slyddu eða snjókomu suðaustantil í kvöld, en dregur úr vindi og ofankomu þar þegar líður á nóttina. Norðvestan 5-10 m/s á morgun, stöku él norðan- og austantil, en annars skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Kólnandi veður, frost 0 til 6 stig í nótt, en hiti 0 til 5 stig sunnanlands á morgun.

Athugasemd veðurfræðings

Vestlæg átt er ríkjandi á Eyjafjallajökli og því má búast við öskufalli á svæðum austan gosstöðvarinnar. Í kvöld snýst vindur til norðlægrar áttar og má þá búast við að öskufall verði suður af eldstöðinni. Á morgun er útlit fyrir áframhaldandi norðan átt.

Sjá spákort hér

 Fleiri upplýsingar 

Því miður ekkert flug
Því miður ekkert flug WOLFGANG RATTAY
Frá Frankfurt flugvelli í morgun
Frá Frankfurt flugvelli í morgun RALPH ORLOWSKI
Allt flug liggur niðri í Belfast
Allt flug liggur niðri í Belfast Reuters
Beðið eftir flugi á Arlanda flugvelli í Stokkhólmi
Beðið eftir flugi á Arlanda flugvelli í Stokkhólmi SCANPIX SWEDEN
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert