Gosmökkurinn rís enn

Mynd tekin úr vél Gæslunnar sem flaug yfir eldstöðvarnar um …
Mynd tekin úr vél Gæslunnar sem flaug yfir eldstöðvarnar um miðjan dag í gær. mbl.is/Kristinn

Enn er talsvert gos í gangi undir Eyjafjallajökli, en þetta kom í ljós þegar sérfræðingar flugu yfir gosstöðvarnar með Landhelgisgæslunni eftir hádegi í dag. Eldvirkni er enn í þremur gígum sem ennþá virðast vera aðskildir. Gosmökkurinn rís enn en er lítill og ljós sem bendir til að gjóska sé ekki mikil í honum. 

Að sögn almannavarna virðist gjóskan úr eldstöðinni hlaðast upp á brúnina og mynda þar hrygg. Kleprar úr sprengingum í gígnum náðu í um 1,5 - 3 km hæð í morgun. Ekkert hraunrennsli var frá gígunum.  Sunnar náðu öskuskýin í um 5-6 km hæð.  Ekki hægt að merkja hraunrennsli frá gosinu, hvorki til norðurs né suðurs.
 
Hætta á hlaupi er ekki til staðar vegna sírennslis vatns niður jökulinn.
 
Lítið sem ekkert öskufall var á Heimalandi við vesturenda Eyjafjalla í dag en strax austur við Ásólfsskála var skyggni komið niður í 70 metra um miðjan dag og í Varmahlíð var skyggnið 100 -150 metrar. Um er að ræða sambland af öskufalli og öskufjúki en talsverður strekkingur hefur verið á svæðinu í dag. Unnið er að því að setja upp fasta lokun á Suðurlandsvegi frá Markarfljótsbrú að  Sólheimajökli. Samkvæmt Veðurstofu Íslands eru líkur á öskufalli á höfuðborgarsvæðinu hverfandi. Veðurspá gerir ráð fyrir að vindátt muni breytast á fimmtudag og verða austanstæð en gert er ráð fyrir hægum vindi og rigningu sem dregur verulega úr líkum á öskufalli. Á vegum almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins er unnið eftir viðbragðsáætlunum fyrir höfuðborgarsvæðið.
 
Í dag voru 7 hópar björgunarsveita að störfum á svæðinu, bæði heimamenn og sveitir frá Vesturlandi, Snæfellsnesi og Suðurnesjum.

Björgunarsveitarmenn hafa mannað lokunarpósta auk þess að aðstoða við ýmis verkefni, svo sem smölun á  búfénaði og önnur tilfallandi verkefni. Bændur hafa verið heimsóttir og virðist staðan hjá þeim nokkuð góð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert