Eins og sparkað í flugvélina

„Hljóðið var eins og sparkað væri í flugvélina en höggið var í sjálfu sér ekki mikið,“ sagði  Eyjólfur Guðmundsson hagfræðingur. Hann og John Turbefield urðu vitni að því hvernig höggbylgjur frá öflugum sprengingum í Eyjafjallajökli þeyttust upp gosmökkinn í gærkvöldi. Sprengingarnar komu reglulega meðan þeir voru yfir jöklinum.

Þeir Turbefield og Eyjólfur tóku meðfylgjandi myndskeið úr lítilli flugvél laust eftir kl. 20.00 í gærkvöldi. Eyjólfur sagði að þeir hafi flogið í 7.000 feta hæð, eða um 1.500 til 2.000 fetum (um 500 til 700 metrum) fyrir ofan jökulröndina norðan og vestan við jökulinn þegar myndskeiðið var tekið. Þeir heyrðu og fundu höggbylgjuna skella á flugvélinni 9-10 sekúndum eftir að hún sást í gosmekkinum.

Seigari kvika veldur öflugri sprengingum

Dr. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, sagði að höggbylgjur á við þær sem sjást í gosinu á Eyjafjallajökli hafi einnig sést í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi en verið þar miklu minni.

„Þær eru meiri þarna [í Eyjafjallajökli] því þar er miklu seigari kvika. Þá verða sprengingarnar miklu kröftugri,“ sagði Ármann. Sprengingarnar stafa af því að lofttegundir losna úr seigri kvikunni þegar hún kemur til yfirborðsins.

Ármann sagði að basalt sé meira þunnfljótandi og þar geti lofttegundirnar betur þanist út, sem þær geri ótæpilega þegar þau losni úr læðingi vegna hins mikla hita.  Kvikan í Eyjafjallajökli sé hins vegar svo seig að hún sé farin að halda við þenslu lofttegundanna.

„Þegar kemur að þeim tímapunkti að kvikan getur ekki lengur teygt á sér er það eina sem getur gerst að hún verður bara að dufti. Þá koma þessar miklu  höggbylgjur,“ sagði Ármann.

Hann sagði að sprengingarnar í Eyjafjallajökli séu í sjálfu sér vægar, en verulega kröftugar sprengingar  geti sent hraunslettur nokkra kílómetra frá eldgíg.

-En hvernig metur Ármann stöðu eldgossins nú?

„Við erum í svolitlum vandræðum því órói hefur aukist mikið en gosið gengið niður í raun. Það er greinilegt að gosmökkurinn sem við sjáum nú rís hátt vegna þess að það er lítill vindur. Þegar gosmökkurinn fer að dreifa úr sér hefur hann ekki kraft til að vinna á móti vindinum. Það er greinilegt að gosið er orðið miklu vægara,“ sagði Ármann.

Hann kvaðst ekki hafa séð neitt hraunrennsli enn úr gígnum. Það sé eðlilegt að sjá glóð þegar fer að rökkva því allt sem er heitara en 600°C glói í myrkri. 

„Menn sjá þessa seigu kviku sem er 1.000 - 1.050°C heit þegar hún kemur upp úr gígnum. Hún glóir auðvitað. Þegar dimmir sjá menn neðst í sprengingunni mesta glóðina því þar er hún heitust. Svo kólnar hún þegar kemur hærra í andrúmsloftið.“

Ármann taldi líklegast að þarna sé einhver hraungúll að tætast í sundur. Mjög seigt hraun hlaðist upp í gígnum og svo tætist það annað slagið þegar kvikugösin nái yfirhöndinni og valdi sprengingum.

„Enn er engin staðfesting komin á því að það sé hraunrennsli eða basalt komið upp. Ég á ekki von á að við sjáum það í bráð. Öll merki gefa til kynna að þarna sé súr kvika á ferðinni.“

Ármann sagði að eldgosið í Eyjafjallajökli sé gjörólíkt því sem varð á Fimmvörðuhálsi. Á Fimmvörðuhálsi kom upp þunnfljótandi basalt sem rann og varð svolítið seigt vegna mikillar afgösunar í gígunum sem kældi kvikuna. 

Kvika úr eldgosinu frá 1821

Hitinn í kvikunni á Fimmvörðuhálsi var 1.100 - 1.200°C en í Eyjafjallajökli er kvikan um 1.000°C heit. Ármann sagði að kvikan í Eyjafjallajökli sé miklu þróaðri.

„Hún er með hærri kísil, seigjan er miklu meiri í þessari kviku en þeirri sem kom upp á Fimmvörðuhálsi. Þetta er gömul kvika frá 1821, um 200 ára gömul kvika sem er að koma upp. Basaltið er þyngra en þessi kvika og það gæti hafa safnast fyrir undir henni og hitað hana upp.

Það er kannski ástæðan fyrir því að þessi kvika kemst upp. Þegar basaltið er búið að hita hana upp verður hún ekki eins seig.“

Sem kunnugt er gaus Eyjafjallajökull síðast árið 1821.

Gosmökkurinn séður frá Múlakoti í Fljótshlíð í morgun.
Gosmökkurinn séður frá Múlakoti í Fljótshlíð í morgun. mbl.is/RAX
Skýringarmyndin sýnir hvernig basalt kom upp á Fimmvörðuhálsi og kann …
Skýringarmyndin sýnir hvernig basalt kom upp á Fimmvörðuhálsi og kann einnig að hafa hitað upp seigari kviku sem svo braust upp úr Eyjafjallajökli. Páll Einarsson (palli@raunvis.hi.is)
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert