Gosið nú lítið annað en æfing

Ólafur Ragnar Grímsson hvetur evrópsk yfirvöld til að fara að …
Ólafur Ragnar Grímsson hvetur evrópsk yfirvöld til að fara að undirbúa sig undir Kötlugos. Rax / Ragnar Axelsson

Eldgosið í Eyjafjallajökli er lítið annað en æfing, sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í viðtali í þættinum Newsnight á BBC í gærkvöldi. Sagan sýni að vel megi búast við fleiri eldgosum í kjölfarið.

„Ég tel okkur hafa lært að náttúruöflin á þessum landshluta, jökulhlaup og eldfjöllin geti staðið lengi og valdið nútímasamfélaginu miklum skaða,“ sagði Ólafur Ragnar. „Því miður kann það sem við höfum upplifað undanfarna daga aðeins að reynast byrjunin.“ Þetta geti vel endurtekið sig í gegnum 21. öldina.

Kötlugos hafi t.a.m. verið beðið á Íslandi undanfarin ár og yfirvöld hér á landi hafi unnið að undirbúningi vegna þess. Full ástæða sé fyrir yfirvöld Evrópuríkja og flugmálayfirvöld að gera hið sama.

Katla gjósi venjulega einu sinni á öld og hún hafi síðast gosið 1918.

Aðsóknarmet hefur verið slegið á vef BBC undanfarna daga og rekja menn það til eldfjallsins í Eyjafjallajökli, enda hefur gosið sett ferðaáætlanir fjölda fólks úr skorðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert