Mikil viðbrögð við orðum forsetans

Eldstöðin Katla
Eldstöðin Katla Rax / Ragnar Axelsson

Gríðarleg viðbrögð hafa verið við ummælum forseta Íslands á BBC í gærkvöld um hugsanlegt Kötlugos og leggja nú yfirvöld og ferðaþjónustan allt kapp á að koma þeim upplýsingum skýrt á framfæri að slík hætta sé ekki yfirvofandi.

Mikið álag hefur verið á samhæfingarmiðstöð Almannavarna í kjölfar viðtalsins þar sem fyrirspurnir streyma inn bæði frá erlendum almannavarnastofnunum og jarðvísindastofnunum um hvort Kötlugos sé í vændum. Frá samhæfingarmiðstöðinni fengust þær upplýsingar að mikil áhersla hefði í dag verið lögð á að leiðrétta misskilning, en ótti við frekari hamfarir virðist hafa skotið föstum rótum vegna ummæla forsetans. Almannavarnir hafa unnið að því samvinnu við utanríkisráðuneytið, Ferðamálastofu og Útflutningsráð að veita réttar upplýsingar um gosið og áhrif þess.

Frá ferðaþjónustunni berast þær fregnir að afbókunum hafi hreinlega rignt inn í dag eftir að frétt BBC spurðist út. Símtöl til flugfélaganna hafa margfaldast og stöðvun orðið á sölu ferða fyrir sumarið.

„Ég skal ekki segja hversu mikil áhrif verða á endanum en það er ekki hægt að segja annað en að þessi framsetning er óheppileg og ekki í anda þess sem við höfum lagt áherslu á sem er það að veita hlutlausar upplýsingar og yfirvegaðar og láta vísindamenn um að tjá sig um það sem snýr að jarðvísindunum,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.

„Ísland er eldfjallaeyja, það gerir hana sérataka og áhugaverða, en það þýðir líka að við búum við að það koma stundum upp eldgos. Þrátt fyrir það er mjög mikilvægt að benda á að eitt eldgos þarf ekki endilega að kalla á annað. Það getur auðvitað allt gerst, en það er engin ástæða fyrir okkur að mála það á vegginn að hættan sé yfirvofandi, sérstaklega þegar jarðvísindamenn segja að ekkert bendi til þess að það sé órói í öðrum eldstöðvum enn sem komið er.“
 

Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri mbl.is/Frikki
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert