Óþarft að skapa óróa og hræðslu

Gosmökkur frá Eyjafjallajökli.
Gosmökkur frá Eyjafjallajökli. mbl.is/Árni Sæberg

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að mikilvægt væri að leggja á það áherslu út á við að hlutirnir á Íslandi gangi eðlilega fyrir sig ef undan væri skilið áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli þar sem ástandið væri vissulega alvarlegt.

„Það er með öllu óþarft og mjög óheppilegt, að skapaður sé viðbótarórói og hræðsla með til dæmis vangaveltum um mögulegt Kötlugos þannig að yfirveguð umfjöllun og æðruleysi eru mjög mikilvægt við þessar aðstæður. Skilaboðin til umheimsins eiga að vera þau, að hér sé full stjórn á öllu, sem mannlegur máttur fær við ráðið. Við megum ekki draga upp þá mynd af landinu út á við að Ísland sé hættulegt land að heimsækja. Það er óþarfi að fjölyrða um hve neikvæð og alvarleg áhrif það getur haft, t.d. á okkar ferðaþjónustu og fleiri atvinnugreinar og hagsmuni landsins alls," sagði Steingrímur m.a.

Umræða er hafin á Alþingi um eldgosið í Eyjafjallajökli og afleiðingar hans  en Steingrímur  flutti þar yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um málið. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC í gærkvöldi, að gosið í Eyjafjallajökli væri eins og æfing fyrir stærri gos, sem búast mætti við og nefndi m.a. að búist hefði verið við Kötlugosi lengi. Talsmenn íslensku ferðaþjónustunnar hafa í dag gagnrýnt Ólaf Ragnar harðlega fyrir þessi ummæli. 

Í yfirlýsingu stjórnvalda segir, að ríkisstjórnin geri sér vel grein fyrir þeirri óvissu og óöryggi sem ríki vegna ástandsins sem gosið hafi valdið, ekki síst hjá íbúum svæðisins og vilji gera allt sem í hennar valdi stendur til að sýna þeim samstöðu og stuðning. 

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að upplýsingum sé skipulega komið til íbúa svæðisins, þeim veitt sálgæsla og annar nauðsynlegur stuðningur. Í þessum tilgangi hefur verið komið á fót sérstökum þjónustumiðstöðvum á Heimalandi og í Vík. Sérstökum upplýsingum verður komið á framfæri um tjón sem bætt er af Bjargráðasjóði og Viðlagatryggingu, og þessum aðilum gert kleift að sinna sínu lögbundna hlutverki. Í því sambandi skal sérstaklega tekið fram að ríkisstjórnin mun beita sér fyrir að Bjargráðasjóði sé tryggt nægilegt fjármagn til að standa undir því tjóni, sem honum er lögum samkvæmt ætlað," segir einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert