„Þetta var pólitísk ákvörðun“

Steingrímur Ari Arason
Steingrímur Ari Arason

„Þetta var pólitísk ákvörðun að taka upp viðræður við þessa aðila,“ sagði Steingrímur Ari Arason í samtali við Rás tvö í morgun um þá ákvörðun að hefja viðræður við Samson og S-hópinn um sölu á hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka. Steingrímur Ari sagði sig úr einkavæðingarnefnd árið 2002 vegna óánægju með hvernig staðið var að sölu bankanna.

„Ég lýsti því fyrir rannsóknarnefndinni að ég telji 99,9% líkur á því að það hefðu verið þeir Halldór [Ásgrímsson] og Davíð [Oddsson] sem tóku ákvörðun um að selja bankana og hefja viðræður við þessa tvo aðila, S-hópinn og Samson.“

Steingrímur Ari sagði að kornið sem fyllti mælinn hefði verið þegar samþykkt var að fallast á kröfu Samson um að fá afslátt af verði Landsbankans vegna þess sem var í afskriftasjóði. Afslátturinn nam 700 milljónum.

„Í fyrsta lagi fannst mér óeðlilegt að fara í samningaviðræður um verðið. Það lá alveg fyrir að ef þeir fengju þennan afslátt þá væri þeirra verðtilboð [Samson] orðið lægra heldur en keppinautanna og svo er hitt, og það gleymist stundum, að ríkið var orðið í rauninni minnihlutaeigandi í Landsbankanum á þessum tíma. Landsbankinn var almenningshlutafélag skráð á markaði og ég gat ekki séð að það stæðist almennar reglur að gefa tilteknum aðila færi á því að fara inn í bankann með þessum hætti, að kynna sér skuldir hverra væru í þessum afskriftasjóði og kynna sér hvort væri líklegt að þeir gætu greitt eða ekki.“

Steingrímur Ari sagði að endurskoðendur Samson hefðu fengið að fara inn í bankann og skoða afskriftarsjóðinn. Þannig hefði ekki verið staðið að málum þegar kom að sölu Búnaðarbankans.

Steingrímur Ari sagði að hálfu stjórnvalda hefði mikil áhersla verið lögð á að ljúka sölunni fyrir kosningarnar 2003, en í stjórnarsáttmála sagði að ljúka ætti sölu bankanna á kjörtímabilinu.

Steingrímur Ari sagði að talsvert hefði verið rætt um að eignarhaldið á bönkunum ætti að vera dreift. Einkavæðingarnefnd hefði hins vegar ekki rætt málið á þeim nótum að eignarhaldið ætti að vera dreift um alla framtíð, „heldur að hafa ferlið gegnsætt, hafið yfir vafa og við töldum í rauninni að markaðsaðilar ættu að geta séð um að búa til þá kjölfestu fyrir bankana sem talin var nauðsynleg.“

Steingrímur Ari sagði þessi vinnubrögð væru hluti af því almenna virðingaleysi sem væri hér á landi í umgengni við settar reglur. „Menn viku reglunum til hliðar á rauninni ógegnsæjan hátt, þ.e.a.s reglunum var ekki bara breytt heldur voru þær settar til hliðar. Þetta gerðist innan bankanna og er enn að gerast í okkar þjóðfélagi. Við erum með reglur, en leyfum okkur - það er eins og það sé í kúltúrnum - að setja þær til hliðar.“

Steingrímur Ari sagðist ekki vera að halda því fram að lög hefðu verið brotin í tengslum við söluna. Ríkisendurskoðun hefði staðfest að ráðherrunum hefði verið heimilt lögum samkvæmt að víkja reglum til hliðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert