Mun stærra íslenskt eldfjall „við það að springa“

Eldstöðin Katla
Eldstöðin Katla

Fréttir um varúðarorð forseta Íslands um yfirvofandi gos í Kötlu var enn víða að finna á forsíðum erlendra vefmiðla í gær.

Á forsíðu netútgáfu breska blaðsins The Independent var í fyrirsögn vísað til hættunnar af því að „annað, mun stærra íslenskt eldfjall væri við að springa“. Auk þess sem vitnað var til orða Ólafs Ragnars í Newsnight ræddi Independent við eldfjallafræðinginn Bill McGuire sem sagðist ekki verða undrandi þótt gos hæfist í Kötlu innan ársins. Þá var umfjöllun um orð forseta Íslands í netútgáfu tímaritsins Travel Weekly, svo dæmi sé nefnt.

Í netútgáfu breska blaðsins Mirror sagði að forsetinn óttaðist hrikalegar afleiðingar Kötlugoss um allan heim. 

„Nei, en það er miklu, miklu stærra“

Í viðtalinu í fréttaþættinum Newsnight á BBC á mánudagskvöld ræddi Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, m.a. um samspil eldgosa og jökuls og áhrifa á gossins í Eyjafjallajökli.

„Því miður gæti þetta verið fyrsta dæmið af mörgum á 21. öldinni því saga þessara eldjalla í landinu mínu sýnir að þau gjósa með reglubundnum hætti. Og tíminn fyrir, til dæmis, gos í Kötlu, er að nálgast,“ sagði Ólafur Ragnar.

Umsjónarmaður þáttarins, Jeremy Paxman, skaut þá inn í að Katla væri auðvitað annað eldfjall „sem hefur sem betur fer ekki gosið.“ Ólafur Ragnar var fljótur til svars: „Nei, en það er miklu, miklu stærra. Og það sem við höfum orðið vitni að er í raun lítil æfing fyrir það sem mun gerast, ekki ef, heldur þegar, Katla gýs. Hún gýs yfirleitt einu sinni á hverri öld. Síðasta gos var árið 1918. Við höfum beðið eftir gosinu í nokkur ár og undirbúið björgunarsveitir okkar og gert neyðaráætlanir. Ég held því að það sé tímabært fyrir stjórnvöld í Evrópu og samgönguyfirvöld í Evrópu og um allan heim að búa sig undir gos í Kötlu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert