Ekkert millilandaflug um Akureyri

Akureyrarflugvöllur
Akureyrarflugvöllur mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ekkert millilandaflug verður í gegnum Akureyrarflugvöll í nótt og í fyrramálið. Ekki liggur fyrir nákvæmlega klukkan hvað lokað verður fyrir flug til og frá landinu í gegnum flugvöllinn. Millilandaflug mun þó geta farið í gegnum Egilsstaði.

Að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa Flugstoða, mun það svæði sem ekki er gefin blindflugsheimild fyrir færast yfir Akureyrarflugvöll fyrr en búist var við, eða einhvern tíman í kvöld. Útlit er fyrir að staðan verði sú sama í fyrramálið. Á meðan svo er verður ekkert millilandaflug um völlinn, en í dag hefur millilandaflugi verið beint til Akureyrar.

Áfram verður þó hægt að lenda í sjónflugi á Akureyri, í Reykjavík og Keflavík.

Hjördís hvetur fólk til að fylgjast með á heimasíðum flugfélaganna og á textavarpinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert