Einn kom með veghefil

Árni Johnsen og Pétur Óli Pétursson við veghefilinn.
Árni Johnsen og Pétur Óli Pétursson við veghefilinn. Heiða Björg Scheving

„Það er alls staðar verið að vinna og hreinsa,“ sagði Árni Johnsen, alþingismaður, sem hefur verið undanfarna daga undir Eyjafjöllum. Eyjamenn ætla að bjóða konum undan Fjöllunum í dagsferð til Vestmannaeyja í næstu viku og stefna svo að goslokahátíð að loknu eldgosinu, enda komnir í æfingu.

Árni sagði að fjöldi sjálfboðaliða leggi nú hönd á plóginn á gossvæðinu auk slökkviliðsmanna á dælubílum og mjókurbílstjóra á mjólkurbílum sem flytja vatn til dælubílanna.  Hópar komu nú um helgina til aðstoðar og eru sjálfboðaliðarnir fleiri í dag en í gær, að sögn Árna. 

„Þeir eru að liðka til við hreinsunina og bústörfin. Svo eru hér galvaskir menn eins og Pétur Óli Pétursson, sem hefur verið hér í þrjá sólarhringa. Sumir koma með skóflu en Pétur Óli kom með veghefil!“

Árni hefur fylgt Pétri Óla um sveitirnar og sagði að hann sé búinn að hreinsa stór bæjarhlöð t.d. á Steinum, í Drangshlíð og á Hvassafelli með heflinum. Í gær og í dag hefur hann verið að vinna í Önundarhorni þar sem mikil aska lagðist yfir.

„Þar hefur hann rutt aur af túnum til að létta á þeim. Það skiptir miklu áður en túnin eru plægð að fjarlægja aurinn. Þetta er búið að prófa á tveimur stöðum og hefur tekist vel. 

Svo hefur hann heflað hlöðin á Önundarhorni og vinnuveg sem tengir öll tún. Nú er hann að vinna í leggnum að þjóðveginum sem er tæpir tveir kílómetrar,“ sagði Árni.

Árni sagði að þegar hugað verði að bótum fyrir það tjón sem Eyfellingar hafa orðið fyrir þurfi að setja nýtt yfirlag, mulning, á allar heimreiðar að sveitabæjum. Þegar góskan sé fjarlægð fari mölin með og hart undirlagið sé eitt eftir.

Mikil samstaða hjá fólkinu

„Mér finnst ríkjandi hér stóísk ró og baráttugleði,“ sagði Árni. „Auðvitað er beygur í sumum en hann er að fjara út. Það er mikil samstaða í fólkinu. Margir fara í mat í Heimalandi á hverjum degi og menn stappa stálinu hver í annan.“

Árni kvaðst hafa haft samband við bæði kvenfélögin undir Eyjafjöllum, Eygló og Fjallkonuna, því til stendur að bjóða öllum konum undir Fjöllunum í dagsferð til Vestmannaeyja, vonandi í næstu viku.  „Það er vonandi að sem flestar komi, þetta er allt í góðum gír,“ sagði Árni.

„Við höfum hótað því Eyjamenn, þegar gosið er búið, að halda hér snöggsoðna goslokahátíð. Fá nokkra tanka af öli og hljóðfærum að Skógum. Við erum vanir,“ sagði Árni fullur af eldmóði.

Bændur undir Eyjafjöllum eru byrjaðir að plægja tún og akra
Bændur undir Eyjafjöllum eru byrjaðir að plægja tún og akra mbl.is/Þorgeir Sigurðsson
Árni Johnsen, alþingismaður.
Árni Johnsen, alþingismaður. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert