Fagna rigningu undir Eyjafjöllum

Eyjafjallajökull sýnir öskugráa hlið.
Eyjafjallajökull sýnir öskugráa hlið. mbl.is/Steinunn Ósk

Mikil rigning er undir Eyjafjöllum sem skolar ösku og öðru gosefni af túnum bænda. „Það er mígandi rigning hérna sem er mjög kærkomið,“ segir Ólafur Tómasson, bóndi í Skarðshlíð. „Það er reyndar ágætisveður hérna - ekkert rok - en rignir vel. Sem er ágætt í alla staði.“

Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, fréttaritari Morgunblaðsins á Hvolsvelli, segir að grænt gras sé farið að gægjast upp úr öskunni víða á túnum þar sem mesta öskufallið varð.

Ólafur var ásamt björgunarsveitarmönnum að þrífa ösku af húsum sínum þegar mbl.is náði tali af honum. Þótt þrifin hafa staðið yfir frá því í byrjun vikunnar er þeim ekki lokið. „Þetta er óskaplega vinna, alveg svakaleg,“ segir Ólafur. Hann hefur þó ekki farið með veghefil yfir túnin, eins og sumir bændur undir Eyjafjöllum.

Gangurinn í gosiðnu verið stöðugur

Veðurstofan flaug ekki yfir gossvæðið í dag, eins og gert hefur verið undanfarna daga, þar sem skyggni er slæmt. Starfsmenn stofunnar fylgjast þó vel með gosinu á mælum, og segja ganginn í því hafa verið nokkuð stöðugan.

Í frétt Veðurstofunnar klukkan þrjú sagði að dregið hafi úr rennsli undan jöklinum. Vatnshæðarmælingar við gömlu Markarfljótsbrúna sýni einnig að vatnsborð hefur lækkað lítillega frá því í gær. Þá sést á GPS mælingum að dregið hefur töluvert úr landbreytingum kringum Eyjafjallajökul.
Björgunarsveitarmenn skola ösku af fjósþakinu í Skarðshlíð fyrr í vikunni.
Björgunarsveitarmenn skola ösku af fjósþakinu í Skarðshlíð fyrr í vikunni. mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert