Hringtorg við Grænás boðið út

Mörg börn eru á Ásbrú á fyrrum varnarliðssvæði.
Mörg börn eru á Ásbrú á fyrrum varnarliðssvæði.

Framkvæmdir við hringtorg við Grænás sem tengir byggðina á Ásbrú við Njarðvík verða boðnar út eftir fjórar vikur. Undirgöng fyrir gangandi fólk verða gerð þar á næsta ári. Kom þetta fram hjá Kristjáni L. Möller samgönguráðherra við umræður um samgönguáætlun á Alþingi í dag.

Árni Johnsen alþingismaður segir að þingmenn kjördæmisins hafi lagt áherslu á að ráðist yrði sem fyrst í þessi göng. Þarna sé hröð og mikil umferð eftir Reykjanesbrautinni en fólk þyrfti að sækja þjónustu yfir hana, ekki síst börn.

„Ég hefði að vísu viljað ganga lengra, fá þarna mislæg gatnamót strax,“ segir Árni og leggur áherslu á að þarna verði að vera örugg tenging. „En þetta er spor í rétta átt,“ bætir hann við.

Við umræðurnar staðfesti ráðherra að síðasti áfangi Suðurstrandarvegar milli Grindavíkur og Þorlákshafnar verður boðinn út á haustdögum þannig að framkvæmdir geti hafist í byrjun næsta árs. Það verður með stærri útboðum.

Við umræðurnar tók Kristján Möller undir það mat Árna Johnsen að tímabært væri að taka ákvarðanir um nýja ferju milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja undir lok næsta árs. „Það er ágætis tímasetning,“ sagði Kristján enda væri þá komin ágætis reynsla á siglingar á þessari leið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert