Ólíðandi að ASÍ ráðist á samningsbundin kjör

Lífeyrisþegar á fundi hjá lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
Lífeyrisþegar á fundi hjá lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

BSRB, BHM og KÍ segja í yfirlýsingu, að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna séu hluti af starfskjörum þeirra og það sé ólíðandi að samtök launafólks eins og ASÍ skuli ráðast á kjarasamningsbundin kjör annarra launamanna.

Í yfirlýsingunni segir, að á grundvelli stöðugleikasáttmálans hafi verið starfandi nefnd sem falið var að fjalla um þau vandamál sem nú steðja að íslenska lífeyrissjóðakerfinu og mögulegar lausnir í því sambandi. Fulltrúar samtaka opinberra starfsmanna hafi tekið þátt í þeirri vinnu ásamt öðrum fulltrúum launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda í þeirri trú að þessi vinna geti leitt til farsællrar lausnar fyrir kerfið í heild sinni.

„Nú er svo komið að opinberir starfsmenn og lífeyrissjóðakerfi þeirra liggur undir stöðugum árásum m.a. frá hendi forseta ASÍ og VÍ. Með þessu  framferði grafa þessir aðilar undan því starfi sem unnið er á borði  nefndarinnar.

Lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru hluti af starfskjörum þeirra og það er ólíðandi að samtök launafólks eins og ASÍ skuli ráðast á  kjarasamningsbundin kjör annarra launamanna. Samtök opinberra starfsmanna mótmæla þessari aðför og vilja undirstrika að lögbundin og samningsbundin réttindi launafólks verða ekki af því tekin, enda er um réttindin samið á milli samningsaðila og sá samningur síðan festur í lög.
Samtök opinberra starfsmanna telja að forsenda fyrir að lausn náist um lífeyrismálin er að staðið verði að fullu við lífeyrisskuldbindingar enda eru þær hluti af launakjörum opinberra starfsmanna," segir í yfirlýsingu samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert